Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Inga Dóra í forystu Siumut í höfuðstaðnum Nuuk

11.06.2020 - 09:37
Mynd: Inga Dóra Markussen / Inga Dóra Markussen
Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen hefur á ný hafið þátttöku í stjórnmálum á Grænlandi. Hún er nýkjörin formaður Nuuk-deildar stjórnarflokksins Siumut, flokks Kielsen, formanns landsstjórnarinnar.

 

Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson hófu Heimsgluggann á umræðum um morðið á Olof Palme en mörgum Svíum þykja niðurstöður sérstaks saksóknara, sem greint var frá í gær, heldur þunnur þrettándi og að ekkert nýtt hafi þar komið fram. Saksóknarinn, Krister Petersson, telur fullvíst að morðinn hafi verið svokallaður Skandiamaður, Stig Engström. Margir draga þá niðurstöðu í efa. Flestir vonuðu að ráðgátan um morð Palmes yrði úr sögunni með rannsókn Peterssons en viðbrögð benda til þess að svo verði ekki.

En Heimsglugginn að þessu sinni fjallaði að mestu um stjórnmál á Grænlandi. Rætt er við Ingu Dóru Guðmundsdóttur Markussen, nýkjörinn formann jafnaðarmannaflokksins Siumut í höfuðstaðnum Nuuk. Inga Dóra á grænlenska móður og íslenskan föður, þau Benedikte Abelsdóttur og Guðmund Þorsteinsson. Inga Dóra var til skamms tíma framkvæmdastjóri Vest-norræna ráðsins og bjó þá á Íslandi. Síðastliðin tvö ár hefur hún búið í Nuuk og starfað fyrir Royal Greenland, langstærsta sjávarútvegsfyrirtæki Grænlands.

 

bjornthor's picture
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður