„Í dag væri þetta kallað dólgafemínismi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Í dag væri þetta kallað dólgafemínismi“

11.06.2020 - 12:53

Höfundar

Kynjahlutverkum er snúið á hvolf, konur fara með völdin og karlar sjá um heimilið, í gamanþáttunum Fastir liðir eins og venjulega frá árinu 1985. Femínistinn Edda Björgvinsdóttir, leikkona og annar höfundur þáttanna, segir að húmor sé góð leið til að koma boðskap á framfæri án þess að vera með beinan áróður.

Annað kvöld verður fyrsti þáttur í gamanseríunni Fastir liðir eins og venjulega endursýndur á RÚV. Edda Björgvinsdóttir og Helga Thorberg skrifuðu handritið og Gísli Rúnar Jónsson leikstýrði. Edda Björgvins rifjaði upp þættina í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, sagði frá pólitískum skilaboðum í þeim og kveikjunni að þeim. Þættirnir voru frumsýndir 1985 og þóttu bregða upp skoplegri og róttækri mynd af samskiptum kynjanna þar sem allt var öfugsnúið. Handritshöfundarnir börðust sjálfar alla tíð fyrir kvenréttindum, meðal annars með þátttöku í Kvennaframboðinu.

Heimskulegt og ljótt orð

Þættirnir gerast í raðhúsi og segja frá nokkrum pörum. Karlarnir sjá að mestu um heimilisverkin og þurfa að biðja konurnar um leyfi fyrir flestu sem þeir gera. Konurnar eru fyrirvinnurnar og hafa stjórn innan og utan heimilisins. „Við skrifuðum bara eins og kynjahlutverkin væru akkúrat öfugt og hefðu aldrei verið öðruvísi. Karlarnir voru annað hvort heima eða nýfarnir að brjótast út af heimilunum,“ segir hún. Þannig var tilgangurinn með þáttunum bæði að fá fólk til að hlæja en líka vekja til umhugsunar. „Þetta hefði þótt vera dólgafemínismi ef einhver aulinn hefði verið búinn að ulla út því orði, sem er náttúrulega svo heimskulegt og ljótt orð,“ segir hún. „Ég hef notað húmor til að koma því á framfæri sem ég vil sjá breytast og allt sem hefur pirrað mig í gegnum tíðina, öll kúgun, ofbeldi og pólitískt bull. Ég nota þessa leið, að draga upp skoplega mynd af því, og þarna vorum við að gera það.“

Við erum allt of skammt á veg komin

Edda viðurkennir að hafa ekki einu sinni leyft sér að leiða hugann að því, baráttukona á níunda áratugnum, að við yrðum jafn skammt á veg komin í baráttu fyrir kvenfrelsi árið 2020 og raun ber vitni. „Ó mæ god hvað mér finnst lítið hafa breyst. Hefði einhverjum dottið í hug á þessum tíma, og þegar Kvennaframboðið var að byrja, að það þyrfti í alvöru kynjakvóta og það þyrfti í alvöru að beita valdi til að konur væru á sömu launum og karlar,“ segir Edda. „Konur eru ekki í stjórnum þar sem alvöru völd eru, þær eru ekki með peningavöld í heiminum. Hverjum hefði dottið þetta í hug þá? Við héldum að Kvennaframboðið yrði lagt niður því það yrði búið að redda þessu öllu.“ Og það hefði ekki verið eins auðvelt að taka slaginn með bros á vör á þessum tíma, segir Edda, ef ljóst hefði verið hve löng og erfið barátta væri framundan. „Maður hefði ekki farið eins glaður og valhoppandi inn í þetta.“

Það eru liðin mörg ár síðan þjóðin fékk síðast tækifæri til að sameinast yfir ævintýrunum í raðhúsinu og Edda segist spennt að rifja þau upp með landsmönnum. „Ég hef ekki séð þá í mörg ár en ég hlakka svo til, sérstaklega að sjá þessa barnungu gullfallegu leikara, sem myndu í dag vera jafn fallegir og góðir, en ekki jafn barnungir.“

Rætt var við Eddu Björgvinsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Enn er ég á núllpunkti, það er bara svarthol“

Leiklist

Dansar, syngur og grenjar í samkomubanni