Fjarlægja styttuna af Baden-Powell 

11.06.2020 - 09:23
epa08475042 People look over the plinth of the Edward Colston statue in Bristol, Britain, 09 June, 2020. Merchant slave trader Edward Colston statue was pulled down during a Black Lives Matter protest 07 June. Protesters in across the UK continue to demonstrate in the wake of the death in police custody of George Floyd in the United States.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Dorset á Suður-Englandi tilkynntu í gær að stytta af Robert Baden-Powell stofnanda skátahreyfingarinnar verði fjarlægð. Hún bætist þar með í safn annarra stytta af sögufrægum einstaklingum sem verið gagnrýndar í tengslum við mótmæli undanfarinna vikna.

Mótmælendur í Bristol rifu um helgina styttu af Edward Colston, sem var áberandi í þrælaviðskiptum á 17. öld, niður af stalli sínum og veltu henni um götur borgarinnar og í höfnina.

Mótmælin hófust eftir að lögreglumaður drap George Floyd Minneapolis í Bandaríkjunum í lok síðasta mánaðar. 

Baden-Powell var bresk stríðshetja í Búastríðinu í Suður-Afríku á 19. öld. Hann er þó þekktastur fyrir að vera stofnandi skátahreyfingarinnar. Stytta af honum er við höfnina í Poole og horfir þar yfir til Brownsea, eyjunnar þar sem hann stofnaði skátahreyfinguna.

Baden-Powell var árið 2007 í 13. sæti yfir áhrifamestu einstaklinga í Bretlandi á 20. öld. Hann hefur verið hylltur fyrir framsýni með stofnun skátahreyfingarinnar en einnig gagnrýndur fyrir kynþáttafordóma og fyrir að styðja Adolf Hitler og aðhyllast fasisma.

Ævin öll ekki virðingarverð

 „Við áttum okkur á að það eru vissir þættir í ævi Roberts Baden-Powell sem eru síður þess virði að njóta virðingar,“ hefur Reuters fréttaveitan eftir Vikki Slade oddvita sveitarstjórnar.

Styttunni af Colston hefur verið komið á þurrt. Henni verður ekki komið fyrir aftur á fyrri stað heldur ætla borgaryfirvöld í Bristol að setja hana á safn. 

Ekki er ljóst hvort styttan af Baden-Powell hlýtur sömu örlög.
 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi