Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ekki heppilegur samstarfsaðili fyrir okkur“

11.06.2020 - 17:46
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, hafi ekki verið heppilegur samstarfsmaður ráðuneytisins vegna gagnrýni hans á ríkisstjórnir Íslands á síðustu árum. Bjarni segist ekki bera neina skyldu til að tilnefna eða styðja skipun Þorvaldar í ritstjórastöðu en að það brjóti ekki gegn akademísku frelsi hans.

Þetta kemur fram í viðtali sem fréttastofa átti við Bjarna síðdegis. Bjarni sagði á Facebook í dag að fjármálaráðuneytið íslenska hefði tilnefnt konu og tvo að auki. Hann vildi í viðtalinu ekki tilgreina hverjir það væru, þetta hefði verið gert í óformlegu tali og viðkomandi ekki endilega vitað af því. „En við töldum að það kynni að vera áhugi til staðar ef á reyndi.“

Það er viðtekin venja að stýrinefnd sem fjármálaráðuneytin á Norðurlöndum móta ráði ekki bara ritstjórann heldur efnistökum í blaðinu, segir Bjarni. Samráð er haft um ritstjóra. Íslenska fjármálaráðuneytið vildi ekki Þorvald þótt svo önnur Norðurlönd hefðu stungið upp á honum. „Ég tel að hann sé ekki heppilegur samstarfsaðili fyrir okkur. Með hans digru yfirlýsingum á undanförnum árum hafi hann mjög vel sýnt það í verkefni að hann hefur hvorki stutt ríkisstjórnir sem hér hafa setið, harkalega mótmælt þeim. Við vildum einfaldlega í fyrsta lagi leggja til konu sem við settum fram sem okkar fyrsta valkost. Við vildum fá yngra fólk. Það eru margir aðrir valkostir en Þorvaldur.“

Mynd með færslu
Þorvaldur Gylfason Mynd: RÚV - RÚv

 

„Hver segir að hans pólitísku skoðanir skipti öllu máli? Ég er bara að segja að ég hef enga skyldu til þess að tilnefna Þorvald eða fallast  á tillögu um Þorvald. Ef við viljum velta fyrir okkur hans skoðunum, ef menn eru að velta fyrir sér hvort það sé líklegt að hann geti verið í samstarfi við fjármálaráðuneyti undir minni stjórn um efnistök í blaðinu og annað þess háttar þá finnst mér það harla ólíklegt miðað við hans yfirlýstu skoðanir.“

Misræmi milli yfirlýsingar ráðuneytis og ráðherra

Yfirlýsing fjármála- og efnahagsráðuneytisins í fyrradag um ferlið við ráðningu ritstjóra og færsla ráðherra í dag á Facebook-síðu sinni fara ekki saman. Í yfirlýsingu ráðuneytisins sagði: „Hin norræna stýrinefnd tók ákvörðun um hver var fenginn til að gegna starfinu. Sjónarmiðunum sem um ræðir var komið á framfæri af ráðuneytinu og ekki borin undir ráðherra né aðra á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins.“ Bjarni sagði á Facebook í dag: „Reyndar er það svo að þegar ég heyrði af þeirri uppástungu var ég afar skýr um að hann kæmi ekki til greina, enda tel ég að sýn og áherslur Þorvaldar Gylfasonar í efnahagsmálum geti engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem ég stýri.“

Aðspurður um þetta misræmi segir Bjarni: „Ég held að þarna séu menn að rugla saman tveimur hlutum. Ég hafði ekki aðkomu að því að þessi tiltekni tölvupóstur var sendur út. Ég hafði hins vegar heyrt af því að komin var af stað umræða í stýrihópnum um væntanlegan nýjan ritstjóra. Ég var bara sáttur við það í hvaða farvegi það var. Eftir að ég heyri hins vegar af því að önnur ríki hafi mótmælt eða ekki fallist á okkar tillögu og vilji frekar leggja til Þorvald Gylfason þá lagðist ég gegn því.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Segir ekki vegið að akademísku frelsi

Aðspurður hvort ekki sé vegið að akademísku frelsi fræðimanna með því að leggjast gegn því að Þorvaldur yrði ritstjóri svaraði Bjarni: „Fyrirgefðu. Hér er um að ræða ritstjórn. Það eru engar hæfniskröfur gerðar. Þorvaldur Gylfason hefur sitt akademíska frelsi algjörlega óskert. Hann hefur hins vegar engan sjálfstæðan rétt til að vera tilnefndur minn fulltrúi inn í ritstjórn þessa tímarits þó svo hann sé prófessor og vel hæfur til að skrifa fræðigreinar. Það gefur honum ekki rétt til þess að fá úthlutað stöðu sem hann hefur áhuga á. Það var aldrei mín tillaga. Það var aldrei tillaga íslenska ráðuneytisins. Þó að einhverjum hafi dottið í hug í þessu samstarfi að nefna hans nafn þá skapar það engan sjálfstæðan rétt hans til að fá stöðu sem ekki einu sinni hefur verið auglýst. Hvað með alla aðra sem höfðu áhuga? Ég skil bara ekki hvað akademískt frelsi hefur nokkuð með þetta að gera.

Segir heildarsamhengið vanta í fréttaflutningi

Bjarni sagði í Facebook færslu sinni í dag að fréttaflutningur um málið hefði verið hlaðinn rangfærslum en tiltók engin dæmi um slíkt.

„Ég held að fréttaflutningur hafi algjörlega misst sjónar á því að hérna er um að ræða stýrinefnd sem er skipuð af fjármálaráðuneytum Norðurlandanna. Það eru fjármálaráðuneytin sem ákveða ritstjórnina og efnistök í þetta blað. Þetta er ekki auglýst staða. Það á enginn rétt á því að fá henni úthlutað. Það hefur enginn samanburður verið gerður á grundvelli einhvers hæfnismats á milli allra þeirra sem mögulega koma til greina. Hins vegar hefur verið látið að því liggja að fjármálaráðuneytið kæmist ekki að í einhverju norrænu fræðiriti án þess að það væri sett í eðlilegt samhengi. Við höfum einfaldlega rétt á því að hafa áhrif á hver verður skipaður ritstjóri blaðsins. Það er algjörlega fráleitt að horfa framhjá aðkomu fjármálaráðuneytisins sem stendur meðal annars straum af kostnaði þessa blaðs, ákveður efnistökin í samvinnu við önnur fjármálaráðuneyti og horfa framhjá því þegar menn eru að flytja fréttir af því að Þorvaldur hafi ekki fengið einhverja stöðu í útlöndum. Þetta heildarsamhengi málsins hlýtur að þurfa að liggja fyrir.“

Þegar fréttamaður segir við Bjarna að munur sé á rangfærslum og tali um heildarmynd svarar hann: „Það eru rangfærslur þegar sagt er ítrekað í fréttum að fjármálaráðuneytið hafi haft afskipti af ráðningu Þorvaldar. Hvernig í ósköpunum geta menn komist að þeirri niðurstöðu að fjármálaráðuneytið hafi verið að hafa afskipti af ráðningu Þorvaldar þegar hann var ekki okkar fulltrúi, þetta er ekki auglýst staða. Við einfaldlega höfum tilnefningarrétt og öll ríkin þurfa að vera með sameiginlega sýn á það hvaða einstaklingar henta best hverju sinni. Þegar fréttamiðlar flytja fréttir af því að við höfum verið með afskipti eins og það sé eitthvað óeðlilegt þá verður að láta það fylgja að við eigum þann rétt. Við greiðum fyrir útgáfu þessa rits,“ segir Bjarni. Hann segir að líta verði til þess umhverfis sem snúi að ráðningunni. „Þannig að afskipti eru ekki óeðlileg. Þau eru beinlínis skrifuð inn í ferlið.“