Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

British Airways selja listaverk til að bæta fjárhaginn

11.06.2020 - 13:51
epa05602163 A British Airways airplane approaches landing at Heathrow airport in London, Britain, 25 October 2016. UK government has approved the decision for a third runway at Heathrow airport. EPA/HANNAH MCKAY
 Mynd: EPA
Stjórnendur British Airways ætla að selja nokkur listaverk úr umfangsmiklu safni flugfélagsins til að bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins eftir kórónuveirufaraldurinn.

Fréttaveitan Reuters greinir frá þessu og hefur eftir heimildarmanni að British Airways ætli að selja að minnsta kosti tíu verk. Flugfélagið á meðal annars verk eftir Damien Hirst, Peter Doig, Tracy Emin og Anish Kapoor. Verkin hafa verið til sýnis í betri stofum sem farþegum á viðskipta- og fyrsta farrými stendur til boða að nýta.

Hugmyndin að sölu listaverkanna kom frá einum starfsmanna British Airways. Uppboðsfyrirtækið Sotheby's hefur þegar verið kallað til og hefur eitt verkanna hafa verið metið á yfir eina milljón punda. 

„Við erum í mjög slæmri stöðu,“ hefur Lundúnablaðið Evening Standard eftir heimildarmanni. „Við erum að gera ýmislegt sem við höfum aldrei gert áður. „Þegar skipið er að sökkva þá getum við ekki haldið öllum þessum hlutum.“

Vonir standa til að með sölunni takist að afla nokkurra milljóna punda til að bæta fjárhagsstöðu British Airways, sem hefur orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna kórónaveirunnar, líkt og flugfélög víða um heim.

Áður hefur verið greint frá að fyrirtækið stefni  á uppsagnir síðar í mánuðinum og hafa breskir þingmenn gagnrýnt harkalega þá fyrirætlun þess að skera niður í starfsliðinu um 12.000 manns. 

Stjórnendur segja hins vegar að slíkar aðgerðir séu nauðsynlegar þar sem stór hluti flugvélaflotans bíði enn aðgerðalaus  á jörðu niðri og ekki sé útlit fyrir að ferðaþjónustan taki við sér á næstunni.

International Airlines Group, móðurfélags British Airways, tapar um 178 milljónum punda á viku, jafnvirði um 30 milljarða króna og hefur Alex Cruz, forstjóri British Airways sagt óvíst að flugfélagið komist af.