Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bjarni segir þá Þorvald ekki eiga samleið

11.06.2020 - 10:38
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að Þorvaldur Gylfason eigi tæplega „samleið með mínu ráðuneyti í þessu verkefni eða yfirhöfuð um önnur stefnumarkandi mál“. Þetta segir Bjarni í Facebook-færslu þar sem hann tjáir sig í fyrsta sinn um það að fjármála- og efnahagsráðuneytið beitti sér gegn því að Þorvaldur yrði ráðinn ritstjóri tímaritsins Nordic Economic Policy Review sem norræna ráðherranefndin gefur út. Hann segir þó að enginn hafi nefnt þetta við sig.

Bjarni gagnrýnir að starfsmaður ráðuneytisins hafi verið nafngreindur í fréttaflutningi af málinu og segir ósmekklegt að setja hann í forgrunn. „Þótt ekki séu öll samskipti borin undir mig ber ég á þeim ábyrgð og í þessu tilviki endurspeglast vilji minn um að tilnefna hvorki né samþykkja Þorvald Gylfason til þessara starfa. Reyndar hafði mér aldrei dottið í hug sá möguleiki og enginn nefnt hann við mig,“ segir Bjarni í færslu sinni. 

Í færslunni segir Bjarni tvennt um hugsanlega tilnefningu Þorvaldar. Annars vegar: „Reyndar hafði mér aldrei dottið í hug sá möguleiki að tilnefna hann og enginn nefnt hann við mig.“ Hins vegar segir hann: „Reyndar er það svo að þegar ég heyrði af þeirri uppástungu var ég afar skýr um að hann kæmi ekki til greina, enda tel ég að sýn og áherslur Þorvaldar Gylfasonar í efnahagsmálum geti engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem ég stýri.“ Ekki kemur fram á hvaða tímapunktum þessar lýsingar eiga við. Fréttastofa óskaði eftir viðtali við Bjarna í gær en hann sá sér þá ekki fært að veita slíkt viðtal.

Bjarni segir að fulltrúi sinn hafi stungið upp á konu sem hefði mikla reynslu af störfum, rannsóknum og skrifum á þessu fræðasviði í ritstjórastöðuna. Til vara hafi verið stungið upp á tveimur öðrum. „Hvorugt þeirra var Þorvaldur Gylfason.“

Þorvaldur kemur ekki til greina

Bjarni segir að ekkert hafi verið búið að ræða við fjármála- og efnahagsráðuneytið þegar Þorvaldi eigi að hafa verið boðin ritstjórastaðan 1. nóvember síðastliðinn. Þá hafi ekki verið búið að nefna Þorvald á nafn við fulltrúa ráðuneytisins. „Reyndar er það svo að þegar ég heyrði af þeirri uppástungu var ég afar skýr um að hann kæmi ekki til greina, enda tel ég að sýn og áherslur Þorvaldar Gylfasonar í efnahagsmálum geti engan veginn stutt við stefnumótun ráðuneytis sem ég stýri.“

Í færslu sinni segir Bjarni að það sé meira en sjálfsagt að mæta fyrir þingnefnd og rekja sjónarmið sín. „Það verður þá í fyrsta sinn sem ég ræði um mögulegt samstarf við Þorvald Gylfason en ekki þarf að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að finna út hvaða hug Þorvaldur hefur borið til þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í undanfarin ár. Ef þörf krefur skal farið betur yfir það fyrir þingnefnd.“

Fréttin hefur verið uppfærð.