Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

10 ár frá lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra

11.06.2020 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: ? - wikimedia
Tíu ár eru liðin frá því ný hjúskaparlög tóku gildi sem heimiluðu hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni. Áður en lögin voru samþykkt gátu pör af sama kyni skráð sig í staðfesta samvist en þeim var hins vegar ekki heimilt að gifta sig.

Með lögunum sem samþykkt voru 2010 var þessi mismunur milli gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para því afnuminn. 

Ragna Árnadóttir var dómsmálaráðherra þegar lögin voru samþykkt en hún sagði að breytingin væri rökrétt skref í réttindabaráttu samkynhneigðra. 

„Víst er þetta stórt skref, en í rauninni samt svo sjálfsagt og eðlilegt framhald á þeirri þróun, sem þegar hefur orðið í að bæta réttindi samkynhneigðra þegar kemur að réttinum til fjölskyldulífs,“ sagði Ragna í tilefni lagabreytingarinnar 2010. 

Þegar lögin tóku gildi hafði stórt framfaraskref í réttindum þegar verið tekið þegar ættleiðing para af sama kyni var heimiluð með lögum árið 2006.

Fengu loksins að ganga í hjónaband

Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður og baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra segir að breytingin úr staðfestri samvist hafi verið mikilvægt skref.  „Í raun og veru jafnast okkar réttindi út á við réttindi gagnkynhneigðra því að um leið og þú þarft að hafa sérstök lög um einhvern hóp, þá setur það mann í undarlega stöðu."

Staðfest samvist var úrræði sem stóð aðeins samkynhneigðum pörum til boða en því fylgdu sömu réttindi og skyldur og hjónabandi gagnkynhneigðra. Úrræðið var numið á brott þegar hjónaband milli einstaklinga af sama kyni var heimilað árið 2010. 

Hrafnhildur segir að lagabreytingin hafi sömuleiðis verið gríðarlega mikilvæg fyrir sig persónulega en eftir að lögin tóku gildi ákváðu hún og kona hennar að ganga í hjónaband. „Mér fannst ég nú loksins geta tekið þetta skref," segir Hrafnhildur. 

Fleiri samkynhneigð pör stigu skrefið eftir lagabreytinguna, til að mynda létu Jóhanna Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir pússa sig saman daginn sem lögin tóku gildi. 

Mynd með færslu
Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Mynd: Unnur Magna.

Mesta viðhorfsbreytingin varð 1996

Aðspurð um hvort lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra 2010 hafi kallað fram viðhorfsbreytingu í íslensku samfélagi segir Hrafnhildur að hún hafi sennilega ekki verið eins mikil og þegar staðfest samvist kom til skjalanna árið 1996. 

Hún telur að árið 2010 hafi þegar orðið umtalsverð vitundarvakning um réttindi samkynhneigðra og lagabreytingin hafi að vissu leyti verið viðbragð við því. Hrafnhildur segir þó að breytingin hafi skipt máli gagnvart kirkjunni.

Hún nefnir að fyrstu fimm árin eftir að hjónaband samkynhneigðra var heimilað máttu prestar Þjóðkirkjunnar synja samkynhneigðum pörum um hjónavígslu á grundvelli persónulegra ástæðna. Samviskufrelsi presta var loks afnumið 2015.  „Það tók fimm ár að tjónka við kirkjuna og ég held að lagabreytingin hafi skipt gríðarlega miklu máli í þeirri baráttu."

 

Mynd með færslu
Frá gleðigöngunni.

Aðeins 29 lönd í heiminum leyfa hjónaband samkynhneigðra

Ísland var áttunda land í heimi til þess að lögleiða hjónaband einstaklinga af sama kyni. Holland ruddi brautina með breytingu á hjúskaparlögum þar í landi árið 2001 en í kjölfarið fylgdu Belgía, Kanada, Svíþjóð, Spánn, Suður-Afríka, Noregur, Svíþjóð og loks Ísland. 

Í dag eru hjónabönd samkynhneigðra lögleg í 29 löndum. Í tveimur löndum til viðbótar, Kenýu og Nígeríu, eru hjónabönd milli tveggja kvenna þó leyfileg undir ákveðnum kringumstæðum, svo lengi sem sambandið milli þeirra er ekki af kynferðislegum toga. 

Hrafnhildur telur að þessi tala muni hækka hægt og bítandi og nefnir að í sumum ríkjum Evrópu hafi orðið bakslag í réttindabaráttunni. Hún nefnir sérstaklega Pólland og önnur ríki Austur-Evrópu í því samhengi. 

„Ég veit um Pólverja sem hefur flúið hingað til lands vegna samkynhneigðar," segir Hrafnhildur.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV