
Vill að Bjarni svari fyrir afstöðu ráðuneytisins
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gærkvöld að hann hafi farið fram á það að Bjarni Benediktsson komi fyrir nefndina og geri grein fyrir afskiptum ráðuneytisins af ráðningunni.
Líkt og greint var frá í gær studdist ráðuneytið við úreltar upplýsingar af Wikipedia-síðu þegar sérfræðingur í ráðuneytinu mælti gegn því við kollega sína í norrænum fjármálaráðuneytum að Þorvaldur yrði ráðinn í ritstjórastólinn. Hann væri virkur í pólitík og enn formaður stjórnmálaflokksins Lýðræðisvakarinnar. Þær upplýsingar voru hins vegar úreltar og baðst ráðuneytið í gær afsökunnar á því að hafa farið með rangt mál.
Þorvaldur taldi ráðninguna frágengna en hún var afturkölluð í kjölfar samskipta á milli fjármálaráðuneyta innan Norrænu ráðherranefndarinnar.
Fræðitímaritið er samstarfsverkefni norrænna fjármálaráðuneyta sem er gefið út í samstarfi við Nordregio, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.
Í byrjun nóvember fékk Þorvaldur tölvupóst frá Norrænu ráðherranefndinni þar sem honum var tjáð að hann hefði verið ráðinn sem ritstjóri tímaritsins. Tveimur vikum síðar barst honum símtal frá Norrænu ráðherranefndinni þar sem honum var tjáð að ekki yrði af ráðningunni. Í millitíðinni höfðu átt sér stað tölvupóstsamskipti á milli fjármálaráðuneyta norðurlandanna um ráðninguna.
Í tölvupóstsamskiptum sem dagsett eru í byrjun nóvember á milli starfsmanna fjármálaráðuneyta Norðurlandanna kemur fram að íslenska ráðuneytið styðji ekki ráðningu Þorvaldar í starfið í ljósi virkrar stöðu hans í stjórnmálum. Hann sé samkvæmt þeirra bestu vitund virkur í starfi stjórnmálaflokks. Ráðuneytið styðji frekar að finnski prófessorinn Jukka Pekkarinen yrði ráðinn eða Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptafræðideildar Háskólans í Reykjavík . Ráðuneyti Dannmerkur og Finnlands undruðust þessa afstöðu Íslands mjög og sögðu að Þorvaldur væri mjög hæfur í starfið.