Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vegasjoppuborgurum skipt út fyrir góðan fisk

Mynd: RÚV / RÚV

Vegasjoppuborgurum skipt út fyrir góðan fisk

10.06.2020 - 13:34

Höfundar

Stofutónleikar Helga Björnssonar og Reiðmanna vindanna slógu í gegn í samkomubanni. Nú er fyrirhuguð tónleikaferð um landið þar sem Helgi og Reiðmennirnir þakka fyrir sig eftir mikinn stuðning í COVID-19 faraldrinum.

Helgi segist vera afar þakklátur fyrir þann stuðning sem Heima með Helga hafi fengið og vilji því þakka fyrir sig. Öll hljómsveitin verður með í för auk gestasöngvara enda ekki hægt að bjóða gestum upp á mýflugumynd af tónleikunum sem slógu í gegn í sjónvarpinu. Helgi mætti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 og sagðist þar vera með sínar kenningar af hverju sjónvarpstónleikar hans slógu svona rækilega í gegn. „Ég get getið mér þess til. Það voru óvenjulegar aðstæður að það voru allir hlekkjaðir heima og ekki mörg partí í gangi,” segir Helgi og bætir við að þeir hafi framreitt sönglagaarf þjóðarinnar sem sé ríkur af perlum sem allir vilja heyra og að lögin hafi sameinað fólk á óvissutímum.

Helgi er enginn nýgræðingur þegar kemur að tónleikahaldi en hann segir margt hafa breyst frá því að hann hóf að koma fram á tónleikum og nú sé mataræðið mun betra. „Ég reyni að borða fisk í öll mál, eins mikið og ég get. Sem betur fer í dag er þetta orðið þannig út um allt land og í Reykjavík að maður fær alls staðar góðan fisk. Það er undantekning ef maður fær ekki einhvers staðar þokkalega góðan fisk. Þannig að ég reyni að fá góðan fisk og mér finnst það það besta sem ég fæ. Það er létt, það er mikil orka, það er prótein,” segir Helgi. Á árum áður var nánast hvergi hægt að fá eitthvað annað en hamborgara. Þá var venjan að fara upp í rútu á fimmtudögum og svo var keyrt á milli staða alla helgina. Þrátt fyrir að rútan sem þeir ferðuðust um á hafi verið búin eldhúsi var lítið eldað um borð. „Það nennti enginn að standa í því. Það fjaraði undan þeim góða ásetningi,” segir Helgi. 

Helgi og hljómsveit koma víða við á ferðalagi sínu. Helgi segist hafa valið áfangastaði sem voru fjærst Háskólabíó, en þar eru einmitt fyrirhugaðir tónleikar með Helga og Reiðmönnum vindanna í ágúst, en upphaflega átti að halda þá tónleika í apríl. 

Nánar var rætt við Helga í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.