Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Varaði við göllum gas- og jarðgerðarstöðvarinnar

10.06.2020 - 20:02
Talsverð óvissa er um hvort sex milljarða fjárfesting Sorpu í nýrri gas- og jarðgerðarstöð GAJA muni virka eins og vonir standa til. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir að tæknin byggi á að úrgangurinn sé sérsafnað lífrænt sorp en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóða ekki upp á slíka söfnun. Hann segir að hætta sé á að of mikið af eiturefnum, plasti og öðrum efnum berist í moltuna og að hún verði ónothæf.

Rætt var við Stefán og Helga Þór Ingason framkvæmdastjóra Sorpu í Kastljósi í kvöld.

Stefán segir að allt bendi þó til að GAJA muni virka vel ef hafin verður sérsöfnun á lífrænum úrgangi. Sveitarfélögin hafa hinsvegar markað þá stefnu að bjóða ekki upp á slíkt á höfuðborgarsvæðinu. Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu, segist fullviss um að grófflokkun sorpsins muni skila tiltölulega hreinum lífrænum úrgangi og að moltan verði nothæf. Nú þegar sé óflokkað heimilissorp með allt að 70 prósent lífrænum úrgangi.

Danska fyrirtækið Aiken rekur sambærilega gas- og jarðgerðarstöð þar í landi en nýtir aðeins lífrænan úrgang við framleiðsluna. Aðspurður í Kastljósi í kvöld viðurkennir Helgi Þór að Sorpa hafi ekki gert sérstakar prófanir á því hvernig moltan verði ef hráefnið er óflokkað heimilissorp. Hann treysti þeim sérfræðingum sem komið hafa að málinu á fyrri stigum. 

Helgi Þór bendir á að það sé ekki Sorpu að ákveða hvort lífrænum úrgangi sé safnað sérstaklega. Það sé eigenda Sorpu, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, að ákveða það. Hann segir að þau mættu hafa betri samfellu og samræmi í því hvernig staðið er að sorphirðu. Hann vonist til þess að ef farið yrði út í það að sérsafna lífrænum úrgangi þá gerðu sveitarfélögin það með samræmdum hætti.

Stundin hefur fjallað ítarlega um málefni GAJA. Þar var bent á að Sorpa hafi í útboði ekki valið bestu tæknilausnina þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Í útskurði kærunefndar útboðsmála frá árinu 2016 kemur fram að Aikan hafi fengið 62.5 stig við mat á tæknilegum eiginleikum. Hinsvegar hafi tæknilausn þýska fyrirtækisins BTA fengið 86.5 stig.

Nánar verður fjallað um málið í Kastljósi annað kvöld en þá situr Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fyrir svörum.

 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV