Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórnmálaskoðanir Þorvaldar ástæða andstöðu ráðuneytis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stýrinefnd um ráðningu ritstjóra norræns hagfræðitímarits var mjög undrandi yfir afstöðu íslenskra fulltrúa í fjármálaráðuneytinu þegar þeir höfnuðu tillögu nefndarinnar um að ráða Þorvald Gylfason í nóvember í fyrra. Fulltrúi Finnlands í nefndinni segir að fjármálaráðuneytið íslenska hafi gefið þá skýringu að það vildi ekki að pólitískt virkur stjórnarandstæðingur gegndi þessu starfi.

Málið er þannig vaxið að í nóvember í fyrra leitaði starfsmaður hjá norrænu ráðherranefndinni, Anders Hedberg, til Þorvaldar Gylfasonar og sagði að honum stæði boða starf ritstjóra hagfræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review, sem er gefið út í samstarfi við Nordregio, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.

Samkvæmt tölvupóstum fyrsta nóvember virðist frágengið að Þorvaldur fengi starfið. Þar skrifar Hedberg meðal annars: "Takk fyrir að þiggja stöðuna. Við hlökkum til að fá þig og þína sérþekkingu til okkar hjá NEPR." Í samtali við fréttastofu segist Hedberg ekki vita nein önnur dæmi þess að ráðuneyti hafi sett sig upp á móti ráðningu í ritstjórastarfið. Ákvörðunin sé hins vegar alfarið ráðuneytanna.

Þann 4. nóvember sendi Markku Stenborg, fulltrúi Finna í stýrinefndinni tölvupóst á fulltrúa annarra Norðurlandaþjóða þar sem óskað var eftir áliti þeirra á tilnefningu Þorvaldar. Í samtali við fréttastofu segir Stenborg að allir nema fulltrúi Íslands í nefndinni hafi verið sammála um ráðningu Þorvaldar. Fjórum dögum síðar sendi Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og fulltrúi Íslands í stýrinefndinni, póst þar sem sagði að eftir nokkra umræðu í ráðuneytinu hefði sú niðurstaða orðið að Þorvaldur væri ekki rétti maðurinn í starfið. 

Mjög hissa á afstöðu fjármálaráðuneytisins

Stenborg segir í tölvupósti nokkrum dögum síðar að hann sé mjög hissa á afstöðu íslenska ráðuneytisins og Ólafur beðinn að rökstyðja hana nánar. Í svari samdægurs segir Ólafur Heiðar að Þorvaldur sé virkur í pólitík og formaður, stjórnarandstöðuflokks, Lýðræðishreyfingarinnar. Ekki sé við hæfi að maður sem gegni formennsku í stjórnmálaflokki gegni þessu starfi.

Stenborg segir í samtali við fréttastofu að það hafi komið öllum nefndarmönnum verulega á óvart að Ísland myndi ekki styðja kandídat úr eigin landi. Sjálfur telji hann að stjórnmálaskoðanir Þorvaldar hafi verið ástæðan og nefndarmenn hafi haft af því áhyggjur hvort verið væri að mismuna Þorvaldi vegna þeirra. 

Rangar upplýsingar af Wikipedia

Í skriflegu svari fjármálaráðuneytisins til fréttastofu segir að fjármálaráðuneytið hafi stuðst við rangar upplýsingar á Wikipedia þegar það fullyrti að Þorvaldur væri formaður Lýðræðishreyfingarinnar og beðist sé velvirðingar á því. Sjónarmiðin sem Ólafur Heiðar sendi á stýrinefndina hafi ekki verið borin undir ráðherra eða aðra á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins.

Bjarni Benediktsson hefur verið boðaður á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem haldinn verður á næstu dögum. Hann sá sér ekki fært að veita fréttastofu viðtal í dag vegna málsins.