Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spá mesta efnahagssamdrætti í sögu OECD

10.06.2020 - 22:10
Mynd: EPA-EFE / EPA
Efnahagssamdráttur á heimsvísu á þessu ári verður sá mesti í sextíu ára sögu OECD. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir hundruð milljóna hafa misst vinnuna og ástandið verði enn verra ef önnur bylgja kórónuveirunnar skellur á.

„Nú stendur yfir heimskreppa, mjög útbreidd, 3 sameiginleg heilbrigðis-, efnahags- og félagskrísa, sem er einfaldlega sú dýpsta sem nokkurt okkar hefur kynnst.“ Svona hóf Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD, blaðamannafund sem haldinn var í París í dag. Og tóninn varð ekki jákvæðari eftir því sem á leið. „Sex prósenta samdráttur í landsframleiðslu á heimsvísu sem við sjáum fyrir árið 2020 er langtum meiri en nokkrar aðrar spár frá okkur á þeim 60 árum sem liðin eru síðan OECD varð,“ segir Gurria. Af öllum 37 OECD-ríkjunum spáir stofnunin yfir ellefu prósenta samdrætti í þeim fjórum ríkjum sem verði verst úti: Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu og á Spáni. Í fimmta sæti er svo Ísland, með 9,9%. 

Ógnin raunveruleg alls staðar

Þegar hafa hundruð milljóna misst vinnuna, og ef önnur bylgja faraldursins skellur á spáir OECD því að í það minnsta fjörutíu milljónir manna til viðbótar missi vinnuna og samdráttur efnahags á heimsvísu verði 7,5% í stað 6. Þó svo að víða sé lífið hægt og rólega að færast í fyrra horf er farsóttin ekki horfin á braut. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði við því í fyrradag að faraldurinn færi versnandi á heimsvísu.  „Á meðan veiran er útbreidd einhvers staðar verður ógnin raunveruleg alls staðar,“ segir Gurria.