Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir villtum laxastofnum fórnað fyrir eldisfyrirtæki

Arnarlax, Laxeldi Sjókvíar, Fiskeldi, Arnarborg, Iðnaður, Tálknafjörður. Dróni.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Formaður Landssambands veiðifélaga gagnrýnir harðlega nýtt áhættumat erfðablöndunar frá laxeldi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti fyrir helgi. Hann talar um svartan dag í sögu íslenskrar náttúruverndar.

Nýtt áhættumat gefur heimild til að ala allt að 106.500 tonn af laxi í sjó við Ísland, sem er tuttugu prósenta aukning á leyfilegu eldi á frjóum laxi. Meðal helstu breytinga í nýju áhættumati er að leyft verður að ala tólf þúsund tonn í Ísafjarðardjúpi.

„Við hörmum það mjög að menn hafi opnað fyrir eldi á frjóum fiski í Ísafjarðardjúpi. Í raun sjáum við ekki annað en að verið sé að fórna þeim laxastofnum sem þarna eru fyrir norsk eldisfyrirtæki. Við lítum í raun á þetta sem mjög svartan dag í íslenskri náttúruvernd, að menn skuli ætla að fara með svona mengandi iðnað þarna inn, vitandi það að þessir stofnar muni auðvitað ekki þola þetta á nokkurn hátt,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Segir umhverfisráðherra bara sitja og horfa á

Jón Helgi gefur einnig lítið fyrir mótvægisaðgerðir sem Hafrannsóknastofnun leggur til, þar sem meðal annars er kveðið á um lágmarksstærð seiða, vöktun veiðiáa og fleira. Hann er harðorður í garð stjórnvalda vegna málsins.

„Við gagnrýnum það mjög að umhverfisráðherra skuli ekki bregðast við til að vernda náttúruna, heldur situr bara hjá og horfir á. Það er eiginlega alveg sama hvenær eitthvað fellur umhverfinu í vil varðandi þessi fiskeldismál, þá koma stjórnvöld alltaf inn og ógilda það til þess að ýta undir þennan iðnað og hjálpa þessum norsku fyrirtækjum að stunda sinn iðnað og menga þessa náttúru sem þau eru með ókeypis undir sína starfsemi,“ segir Jón Helgi.

Taka þarf meira tillit til villtra laxastofna

Í skriflegu svari til fréttastofu áréttar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, að áhættumatið sé ekki á hans borði. Hann sé þó þeirrar skoðunar að taka þurfi meira tillit til villtra laxastofna við þróun fiskeldis hér á landi. 

„Í því felst m.a. að þróa aðferðir til að ala fiskinn á landi, sem geldfisk eða í lokuðum sjókvíum. Það er sú langtímaþróun sem ég hef talað fyrir og tel vera í meira samræmi við náttúruverndarsjónarmið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.