Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir fjölmörg störf fylgja fyrirhuguðu vindorkuveri

10.06.2020 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: Landsvirkjun
Framkvæmdaaðilar sem vilja reisa vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða í Dalabyggð segja gagnrýni andstæðinga ekki á rökum reista. Þeir telja jafnframt ekki þörf á að skerpa á lögum og reglum um vindorku hérlendis.

Nágrannar jarðarinnar Hróðnýjarstaða, þar sem fyrirtækið Storm orka hyggst reisa vindorkuver, hafa lýst yfir áhyggjum af framkvæmdinni. Magnús Jóhannesson, einn eigenda Storm orku, segir að áhyggjur af hljóðmengun séu ekki á rökum reistar. Sú fjarlægð sem fyrirhuguð er frá vindmyllu að næsta bæ sé um þrír kílómetrar og það þýði að hljóðið verði lægra en suð í ísskáp. 

„Hvað varðar ásýnd þá er þetta þannig að þetta eru stór mannvirki og þau sjást. Í sjálfu sér er lítið sem við getum gert, þó er eitthvað. Við getum boðið upp á mótvægisaðgerðir,” segir hann. 

Hann segir að boði um slíkar aðgerðir hafi hins vegar verið tekið fálega.  

Ýmis jákvæð áhrif fylgja vindorkuveri

Magnús undirstrikar að orkuverið geti haft ýmis jákvæð áhrif. Þar nefnir hann bæði aukið afhendingaröryggi raforku og tekjur til sveitarfélagsins. Einnig að miðað við alþjóðlega reynslu gætu bein og afleidd störf orðið meira en þrjú hundruð á framkvæmdatíma og varanleg störf tæplega sextíu.  

Bæði Dalabyggð og andstæðingar vindmyllanna hafa sagt að þörf sé á að hið opinbera skerpi á hvernig vindorkumálum skal hagað hér á landi. Magnús tekur ekki undir það. 

„ Það gilda lög og reglur um raforkuiðnaðinn og hafa gilt í mjög mörg ár. Vindorka er bara hluti af raforkuiðnaðinum, þannig að það gilda um þetta reglur og lög í dag,” segir Magnús. 

Taka til varna ef til málaferla kemur

Andstæðingar vindorkugarðsins hafa sagt að gripið verði til allra ráðstafana til þess að hindra framkvæmdina . Magnús kveðst ekki hafa áhyggjur af málaferlum. 

„ Við reynum að vanda okkur. Ég sé ekki betur en að sveitarfélagið sé að vanda sig líka. Þannig að, nei ég á ekki von á því að það fari þá leið, en ef svo er þá tökum við bara til varna.”