Sakar Kína og Rússland um að dreifa falsfréttum

10.06.2020 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sakar kínversk og rússnesk stjórnvöld um að dreifa falsfréttum um Covid-19 faraldurinn.

Það eru sérstaklega Kína og Rússland sem dreifa falsfréttum og misvísandi upplýsingum um kórónuveiruna og Covid-19 veikina, segir í harðorðri yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar sem fylgist gjörla með dreifingu falsfrétta í ríkjum Evrópusambandsins.

Framkvæmdastjórnin segir að bylgja falsfrétta og rangra upplýsinga hafi skollið á almenningi að undanförnu og tilgangurinn sé greinilega að grafa undan lýðræðislegri umræðu og ýta undir klofning á milli einstakra samfélagshópa.

Auk þessa reyni Kína, Rússland og önnur lönd sem stundi þessa iðju að bæta ímynd sína með þessum falsfréttaflutningi. Þetta hafi skaðað baráttu ríkjanna gegn farsóttinni.

Vera Jourová, sem er framkvæmdastjóri lífsgilda og gagnsæis, segist hafa áhyggjur af að ekkert lát verði á streymi falsfrétta á næstu misserum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Evrópusambandið gagnrýnir Rússland fyrir að dreifa falsfréttum, en sambandið hefur ekki gagnrýnt kínversk stjórnvöld með svo opinskáum hætti áður.

Á meðal falsfrétta og rangra upplýsinga sem Evrópusambandið segir þessi ríki dreifa er að forréttindafólk alþjóðasamfélagsins hafi látið búa til veiruna til þess að hafa hemil á fólksfjölgun í heiminum, að maður nái bata með því að drekka hreint alkóhól eða klór og að hættulegt verði að láta bólusetja sig gegn veirunni ef og þegar bóluefni verður tilbúið.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi