Mótið verði eitt það skemmtilegasta

Mynd: RÚV / RÚV

Mótið verði eitt það skemmtilegasta

10.06.2020 - 20:00
Keppni hefst á föstudagskvöld í Pepsi Max deild kvenna. Helena Ólafsdóttir, fyrrum landsliðsþjálfari, á von á meira spennandi deild í sumar en síðasta sumar.

Valur og Breiðablik stungu önnur lið af í deildinni í fyrra og Valskonur urðu að lokum Íslandsmeistarar án þess að tapa leik. Helena, sem nú stýrir Pepsi Max mörkunum á Stöð 2 Sport, á von á að bæði lið berjist á toppnum auk Selfoss og spennan verði meiri.

„Ég held að þetta verði eitt skemmtilegasta mót sem við erum að fara inn í og líka svona af því að við vitum ekkert hvernig liðin eru svona rétt fyrir mót, þannig að ég er mjög spennt, hlakka mikið til.“ segir Helena.

Meistarar Vals og Breiðablik, sem lenti í öðru sæti, fóru bæði taplaus í gegnum tímabilið í fyrra. Sér Helena fyrir sér að toppbaráttan þróist með líkum hætti í ár?

„Ég held að þær stingi kannski ekki af, ég held að liðin fari ekki taplaus í gegnum sumarið en þær verða ofarlega og margir sem spá Blikum toppsætinu. Valur berst um það ásamt Selfossi, ég held að þessi þrjú lið gætu skorið sig svolítið úr.“

Helena segir óvissuna eftir kórónuveirufaraldurinn gera það að verkum að erfiðara sé að spá í ár en oft áður. Það eigi sérstaklega við um fallbaráttuna.

„Ég reikna með að þetta verði erfitt fyrir Þrótt. Þó að ég hafi mikla trú á þjálfarateyminu þar þá reikna ég með að þetta sé bara erfitt og ég á von á þeim niður. Hver fer með þeim - margir spá ÍBV. Þar er gjörsamlega nýtt lið í kortunum, sem við höfum ekki séð áður og ég held það séu einir átta útlendingar. Mögulega niður, ég veit það ekki. Ég þori ekki að spá um það.“ segir Helena.

Ummæli Helenu um tímabilið sem fram undan er má sjá í spilaranum að ofan.