Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglan langt frá því að endurspegla samfélagið

Mynd með færslu
 Mynd: shutterstock/rúv
Mótmælendur víða um heim krefjast þess að lögreglan breytist. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort kynþáttafordómar þrífist innan lögreglunnar á Íslandi. Lögreglunemar fá fræðslu um samskipti við ólíka samfélagshópa og hluti starfandi lögreglumanna hefur sótt námskeið um fjölmenningu en innan raða lögreglunnar starfa sárafáir innflytjendur. Innfllytjendum í lögreglunámi hefur fækkað um helming á síðustu árum.

Lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri telur brýnt að fjölga lögreglumönnum með innflytjendabakgrunn svo lögreglan endurspegli samfélagið betur. Lögmaður segir mikilvægt að rannsaka hvort rasismi þrífst innan löggunnar hér. 

Óttast harðræði

Á dögunum greindi Claudie Ashonie Wilson, lögmaður, frá því að hún hefði kennt sonum sínum að umgangast lögregluna hér af varfærni.

fyrsti innflytjandi til að fá héraðsdómslögmannsréttindi
 Mynd: RÚV
Claudie WIlson, lögmaður á Rétti.

„Sem svört kona á Íslandi finn ég mig knúna til að tala við börnin mín um lögregluofbeldi og hvernig þau ættu að haga sér í kringum lögreglu. VIð erum alltaf að lenda í deilu núna því þeir eru á fimmtánda ári og vilja vera úti til miðnættis eins og allir hinir en ég leyfi það ekki og ég var að viðurkenna fyrir þeim ástæðuna fyrir tveimur dögum, ég er hrædd við það að ef einhver vinur þeirra og þeir væru á röngum stað á röngum tíma gætu þeir orðið fyrir harðræði.“

Þetta sagði Claudie í Morgunútvarpinu á Rás 1. Staðan hér er ólík stöðunni í Bandaríkjunum þar sem lögregluofbeldi gegn svörtum hefur undanfarið verið mótmælt en Claudie segir áhyggjur sínar ekki úr lausu lofti gripnar. Hún vill að ríkið styrki aukna fræðslu og rannsóknir á fordómum innan lögreglunnar, því eins og er liggi ekki fyrir hversu útbreiddir þeir séu. 

Talin vera hælisleitandi

Sjálf hefur Claudie lent í því að lögregla gekk fram hjá henni þegar hún mætti til að vera viðstödd skýrslutöku skjólstæðings sem lögmaður. Lögreglan ályktaði að hún væri hælisleitandi að bíða eftir lögmanni sínum. Claudie segir að þetta gefi til kynna að lögregla, líkt og aðrir, hafi innbyggða fordóma sem mikilvægt sé að skoða og uppræta. Þetta sé sérstaklega mikilvægt í ört vaxandi fjölmenningasamfélagi.

Mynd með færslu
 Mynd:

Bætur vegna harðræðis lögreglu

Claudie nefnir tvö mál þar sem ríkið var dæmt til að greiða mönnum af erlendum uppruna bætur en þeir töldu sér hafa verið mismunað, annars vegar vegna húðlitar, hins vegar vegna fordóma gagnvart múslimum. 

Í öðru málinu var um að ræða íslenskan ríkisborgara af afrískum uppruna, sem taldi lögreglu hafa mismunað sér á grundvelli húðlitar. Lögregla handtók hann vegna gruns um hylmingu. Hún hafði fengið tilkynningu um grunsamlegan svartan mann sem væri að færa gömul sjónvörp milli bifreiða. Claudie segir að þrátt fyrir að maðurinn hafi framvísað skilríkjum og staðfestingu á því að hann hefði fengið sjónvörpin gefins hafi lögregla ekki veitt honum færi á að skýra mál sitt. Að sögn mannsins var honum jafnframt neitað um aðstoð verjanda við skýrslutöku hjá lögreglu. Claudie segir málið ekki hafa farið fyrir dóm en að fallist hafi verið á að greiða manninum skaðabætur.

Seinna málið varðaði tyrkneskan ríkisborgara af kúrdískum uppruna sem lögregla hafði endurtekin afskipti af. Í eitt skiptið var hann handtekinn vegna gruns um að hafa brotið gegn nálgunarbanni með því að hóta fyrrverandi sambýliskonu sinni og syni hennar. Héraðsdómur sagði sannað að maðurinn hafi verið látinn dvelja í um það bil 17 klst í fangaklefa; klæðalaus, án dýnu og án þess að fá viðhlítandi aðhlynningu.

Maðurinn taldi að afskipti lögreglu hafi einkennst af tungumálaörðugleikum og fordómum gagnvart múslimum. Héraðsdómur dæmdi ríkið til að greiða honum hálfa milljón í miskabætur vegna harðræðis . Þá gerði dómurinn athugasemd við að hann hefði, í annað skipti sem lögregla hafði afskipti af honum, ekki fengið túlk þrátt fyrir að hafa óskað eftir því.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fangageymsla.

Innflytjendum í náminu fækkað um helming

Tæp 16% landsmanna eru af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda. Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, vill að lögreglustéttin endurspegli samfélagið betur. „Ekki það að það sé einhver tókenismi, að það þurfi einn úr hverjum minnihlutahóp, heldur að lögreglan sem heild endurspegli samfélag sitt, því þannig öðlast hún betri skilning á öllum kimum þess.“

Það hefur ekki gengið vel að fá fólk með innflytjendabakgrunn í lögregluna eða lögreglunámið. „Það eru afskaplega fáir og þeim hefur því miður fækkað eftir að námið fór á háskólastigið.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eyrún Eyþórsdóttir.

Eyrún segir að til séu tölur frá gamla lögregluskólanum sem þurfi að taka með fyrirvara. Á árunum 2011-2015 hafi um 12% nema verið með einhvern erlendan bakgrunn. Árið 2017, ári eftir að kennsla í lögreglufræði hófst við Háskólann á Akureyri, var talan komin niður í 6%. 

Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri. Bóklegi hluti námsins fer þar fram en sá verklegi hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. Námið tekur tvö ár.

Hvað eru eiginlega margir innflytjendur í löggunni?

Eyrún er ekki klár á því hversu margir innflytjendur starfa innan lögreglunnar. Ríkislögreglustjóri heldur ekki utan um fjöldann. Claudie Wilson vann í fyrra rannsókn á aðgengi innflytjenda að störfum innan stjórnsýslunnar, hún segist engin svör hafa fengið frá lögreglunni, þrátt fyrir ítrekanir. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglumenn við störf.

Innan lögreglunnar starfa á milli 600 og 700 manns og Eyrún segir ljóst að í hópnum séu afar fáir innflytjendur, líklega nokkrir sem eiga annað foreldri erlent en örfáir sem teljist til fyrstu eða annarrar kynslóðar innflytjenda og líklega færri hér en annars staðar á Norðurlöndunum. 

Árið 2013 birtist grein á mbl.is þar sem rætt er við pólska konu, hún er þar sögð vera fyrst innflytjenda til að ganga í lögregluna. „Ég persónulega veit um tvo en ég er viss um að þeir eru fleiri, ég veit ekki til þess að þessi tölfræði hafi nokkurn tímann verið tekin út,“ segir Eyrún. 

Þó tölur séu af skornum skammti virðist lögreglan hafa velt samsetningunni fyrir sér. Í nýlegri skýrslu ríkislögreglustjóra um áskoranir í löggæslu næstu árin eru dregnar upp sviðsmyndir. Meðal annars er fjallað um fjölgun innflytjenda, félagslega blöndun, aðgengi og traust. Í einni sviðsmyndanna er gert ráð fyrir að innan nokkurra ára verði starfandi 100 lögreglumenn með erlendan bakgrunn, flestir af pólskum ættum. Lögreglan hafi verið virk í að taka þátt í aðgerðum stjórnvalda til að auðvelda innflytjendum að taka þátt í samfélaginu og árið 2024 hafi verið ákveðið breyta lögreglunáminu og aðlaga það betur að þörfum innflytjenda. 

Krafa um íslenskukunnáttu og ríkisborgararétt

Lögreglunemar þurfa að vera með íslenskan ríkisborgararétt, í rannsókninni sem lögfræðistofan Réttur vann í fyrra kom fram að það geti verið hindrun því oft taki tíma að fá umsókn um ríkisborgararétt afgreidda. Eyrún segir að í gamla lögregluskólanum hafi verið stafsetningapróf sem var talin ákveðin hindrun fyrir fólk sem ekki hafði íslensku að móðurmáli. Nú eru gerðar kröfur um að nemendur séu nógu góðir í íslensku og ensku til að geta lært á háskólastigi. Það hefur verið sýnt fram á að ungt fólk með innflytjendabakgrunn fer síður í háskóla, einkum fólk sem flytur seint til landsins.  „Það í sjálfu sér útilokar þá frá því að sækja um hjá okkur,“ segir Eyrún.  

Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, segir að það sé enn ritunarpróf, enda mikilvægt að lögreglumenn geti skrifað nákvæmar skýrslur. Prófið vegur kannski ekki þungt en samkeppnin um að komast inn í námið er hörð. Af 240 umsækjendum komast kannski 100 inn í akademíska námið, þar bíða þungir lögfræðiáfangar með lagatæknilegu máli. Svo eru samkeppnispróf og eftir það eru um 40 teknir inn í starfsnám hjá menntasetrinu, dæmi eru um að innflytjendur hafi byrjaði í náminu en ekki komist í gegnum þessa síu. Aðalvandinn, að sögn Ólafs Arnar, er þó sá að það sækja nánast engir innflytjendur um að komast inn í námið. 

Kvótakerfi virkaði til skamms tíma

Í nágrannalöndum okkar hefur verið unnið að því að fjölga innflytjendum í lögreglunni, traust ungra innflytjenda í garð lögreglunnar mælist þar lítið.  Í Noregi var komið upp kvótakerfi. Í Hollandi var deildum þar sem hlutfall lögreglumanna af erlendum uppruna fór upp fyrir 8,5% umbunað fjárhagslega og að auki var innflytjendum sem ekki stóðust tungumálakröfur hollenska lögregluskólans boðið á sérstakt undirbúningsnámskeið. Eyrún segir að hér hafi verið rætt um að ráðast í sértækar aðgerðir, til að laða fleiri með innflytjendabakgrunn að, en ekki gripið til þess. Hún segir kvótakerfið í Noregi hafi virkað, um stund. Svo hafi farið að bera á brottfalli. „Það þarf að hugsa þetta víðtækara en bara að taka inn fólk með erlendan bakgrunn. Það þarf líka að hugsa um að þetta fólk finni sig í lögreglunni. Hvers vegna fann það sig ekki? Það er nýleg rannsókn frá Noregi sem til dæmis bendir á það að fólk bara upplifði ekki að það tilheyrði, það upplifði að aðrir lögreglumenn notuðu það gegn þeim að þau hefðu komist inn á einhvers konar afslætti því þau komust inn með sértækum aðgerðum þó ekki hafi falist neinn afsláttur í því per se. Þau upplifðu ákveðna útilokun, að vera ekki tekin inn í hópinn og það er mikið vandamál ef svo er reyndin.“ 

Heimildir fyrir aðgerðum

Claudie Wilson, lögmaður á Rétti, myndi vilja að sértækum aðgerðum yrði beitt. Hún bendir á að í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sé að finna heimildir fyrir slíkum aðgerðum, að hennar mati virðist skorta áhuga og viðhorfsbreytingu. Lögreglan geri margt vel en þurfi líka að taka tillit til menningarlegs bakgrunns og reynslu fólks, stuðla að gagnsæi og tryggja að lögreglumenn hafi þekkingu og þjálfun til að vinna í breyttu samfélagi.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Ísland er fjölmenningarsamfélag.

Rannsóknir benda til þess að fjölbreytileiki ýti undir traust almennings í garð lögreglunnar. Einsleitni geti aftur á móti ýtt undir einsleit viðhorf og ósanngjarna framkomu í garð minnihlutahópa. Það eru þó ekki allir rannsakendur á því að það eitt að fjölga innflytjendum innan lögreglunnar hafi áhrif, alveg eins og það að fjölga konum stuðli ekki alltaf að auknu jafnrétti, það þurfi að uppræta kerfisbundið óréttlæti í samfélaginu og breyta óheilbrigðri vinnumenningu innan lögreglunnar. Ofbeldi hvítra lögreglumanna gegn svörtum borgurum í Bandaríkjunum var kveikjan að þeirri mótmælahreyfingu sem nú lætur að sér kveða víða um heim.

Bandaríska lögreglan endurspeglar ekki samfélagið, um 60% Bandaríkjamanna teljast hvítir en innan lögreglunnar er hlutfall hvítra. 73%. Jennifer Cobbina, aðstoðarprófessor í afbrotafræði við háskólann í Michigan í Bandaríkjunum fjallar um stöðuna í grein í vefritinu The Conversation. Hún segir rannsóknir ekki hafa sýnt fram á fylgni milli uppruna lögreglumanna og framkomu þeirra við borgara. Um fjórðungur þeirra sem hún ræddi við í Baltimore, þar sem svartir eru í meirihluta, taldi svarta lögreglumenn sýna almenningi meiri viriðngu og kurteisi. Um fjórðungur þeirra sem lögregla hafði haft afskipti af var aftur á móti á þeirri skoðun að svartir lögreglumenn sýndu svörtum borgurum meiri hörku en hvítir. 

Lítil fræðsla í Bandaríkjunum

epa08476243 Protesters participate in a social distance, Kneeling for Justice, and a memorial and celebration of George Floyd at City Hall in San Francisco, California, USA, 09 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck. The unarmed Black man later died in police custody and all four officers involved in the arrest have been charged and arrested.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá mótmælum í Kaliforníu, Bandaríkjunum.

Ein leiðin til að auka traust og aðgengi lögreglunnar að innflytjendum er að fjölga innflytjendum í löggunni, önnur leið er að veita lögreglumönnum fræðslu um fjölmenningu og auka skilning þeirra á ólíkum hópum samfélagsins. Í Bandaríkjunum er þessi fræðsla lítil. Í nýlegri umfjöllun Norska ríkisútvarpsins er menntun lögreglumanna í Bandaríkjunum og Noregi borin saman. Bandaríska lögreglunámið tekur 105 daga, þar af fá lögregluefni 35 klst fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins, mannréttindi og siðferði en tæplega 150 klukkustundir fara í að læra um vopnaburð og sjálfsvörn. Í Noregi er námið þrjú á og hér tvö.. 

Hér hefur ýmislegt verið gert á þessu sviði. Árið 2016 hrinti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu af stað verkefni þar sem hópur innflytjenda var fenginn til samtals um hvernig mætti efla traust og tryggja jafnt aðgengi allra að lögreglu. Innflytjendur hafa sumri slæma reynslu af lögreglunni, í heimaríkjum þeirra er hún kannski þekkt fyrir að beita harðræði og sumir hafa sætt ofsóknum af hálfu hennar. Lögreglan getur því þurft að hafa fyrir því að vinna traust þeirra. Claudie þykir miður að ekki hafi verið haldið áfram með þetta verkefni. 

Eyrún segir að meiri áhersla sé nú lögð á fjölmenningu í lögreglunáminu en áður, það sé eitt skyldunámskeið um fjölbreytileika og löggæslu og komið inn á þessi mál í mörgum öðrum námskeiðum. „En það er ekki nóg að mennta fólk í náminu, framtíðarlögreglumenn þurfa að finna, þegar þau stíga úr lögregluskólanum og inn í lögregluna, þau þurfa þá að finna þennan jarðveg þar líka.“

Rúm tíu prósent starfandi sótt námskeið

Eyrún segir mikilvægt að fræðsla um fjölmenningu verði stærri hluti af símenntun lögreglumanna. Það hafi verið í boði fræðsla um hatursglæpi og haturstjáningu en meira þurfi til. 

epa05128631 A general view on the gate with sign 'Work sets you free', of the former Nazi-German concentration and death camp KL Auschwitz-Birkenau before ceremonies marking the 71st anniversary of the liberation of the former Nazi-German
Útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz í Póllandi. Mynd: EPA - PAP
Við inngang Auschwitz-búðanna í Póllandi.

Fyrir nokkrum árum kenndi hún fimm daga námskeið um hatursglæpi, fordóma, fólksflutninga og fjölmenningu sem hún áætlar að rúmlega tíu prósent starfandi lögreglumanna hafi sótt, það fór að hluta fram í Póllandi og meðal annars farið á gyðingasafnið í Auschwitz. Lögreglumennirnir gátu fengið þátttökugjaldið endurgreitt og Eyrún segir að þess vegna hafi þátttakan verið góð. Þegar lögreglumenn þurftu að greiða úr eigin vasa dró mjög úr aðsókn. Henni finnst hafa dregið úr áhuga á þessum málum innan lögregluembættanna. Fyrir nokkrum árum starfaði hún hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafði umsjón með því að rannsaka hatursglæpi. Þetta var sérstakt verkefni sem nú er lokið. Nú heyra hatursglæpir undir aðra og stærri deild þar sem einnig eru rannsakaðar alvarlegir ofbeldisglæpir, líkamsárásir og morð.  Hún segir að eðli málsins samkvæmt hafi hatursglæpir ratað neðar á forgangslistann. „Í nýlegri BA ritgerð þar sem tekin var saman tölfræði hatursglæpa á landsvísu kemur áberandi fall í fjölda mála sem lögreglan hefur rannsakað eftir að þessu verkefni lauk.“

Mikilvægt að lögreglan geti brugðist við fordómum

Erlendar rannsóknir benda til þess að lögreglan sé ekki fordómalaus, þær hafa meðal annars sýnt að lögreglan er gjarnari á að stöðva ökumenn sem tilheyra minnihlutahópum. Hér hefur þetta ekki verið rannsakað. En telur Eyrún að það ríki fordómar innan lögreglunnar? „Ég myndi aldrei bera það saman við það sem á sér stað í Bandaríkjunum, aldrei nokkurn tímann. Ég held það séu ekki grasserandi fordómar en ég er sannfærð um að eins og annars staðar í samfélaginu þá séu einstaklingar í lögreglunni sem eru haldnir fordómum. Það er kannski ekki hægt að koma algerlega í veg fyrir að slíkt fólk fari inn í lögregluna. Það þarf náttúrulega kannski að skoða þetta frá fræðilegum vinkli, hvort þetta sé til staðar hér. Því við vitum það hreinlega ekki og þarf líka að vera eitthvað innan embættanna sem tekur á því ef lögreglumenn skyldu sýna einhver merki um svona neikvæð viðhorf.“