Kynfræðsla stærra samtal en smokkar og blæðingar

Mynd: RÚV / RÚV

Kynfræðsla stærra samtal en smokkar og blæðingar

10.06.2020 - 11:36
Sólborg Guðbrandsdóttir hefur haldið úti Instagramsíðunni Fávitar í fjögur ár og nú vinnur hún að útgáfu bókar byggða á þeim spurningum sem hún hefur fengið frá ungu fólki um kynlíf og samskipti kynjanna. Hún segir kynfræðslu vera mun stærra samtal en bara kennsla á smokka og blæðingar.

Sólborg stofnaði síðuna fyrir fjórum árum til þess að birta skjáskot af þeirri kynferðislegu áreitni sem hún hafði lent í á netinu. Fljótlega fór síðan að vinda upp á sig og fólk fór að deila með henni áreitni sem það hafði lent í. Þetta hefur svo þróast út í konar kynfræðslu fyrir ungt fólk en oft hefur verið tala um að kynfræðslu sé ábótavant í grunnskólum. 

„Það er allur gangur á þessu og misjafnt milli skóla hvort þeir eru með mikla kynfræðslu, litla kynfræðslu eða enga. En það gengur ekki að menntakerfið sé þannig að það virki fyrir einhver börn og önnur ekki út frá því hvað einum og einum skólastjórnanda finnst um kynfræðslu,“ segir Sólborg. 

Hún segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi fengið þá sé kynfræðsla í 6. og 9. bekk þar sem fjallað sé um breytingar á líkamanum sem eiga sér stað á kynþroskaskeiðinu og svo um kynlíf. Það vanti hins vegar stærra samtal. „Kynfræðsla snýst ekki bara um líkamann minn og hvernig hann virkar heldur líka um hvernig ég get talað við einhvern og fengið samþykki,“ bætir Sólborg við.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Fávitar (@favitar) on

 

Fyrir stuttu síðan hafði kennari í grunnskóla á Akureyri samband við hana en hann vildi kenna unglingum í bænum út frá efni síðunnar. Akureyrarbær tók svo þá ákvörðun að bjóða áfangann sem valáfanga fyrir alla unglinga í sveitarfélaginu. „Hann býr til námsefni út frá síðunni minni og svo mun bókin geta nýst í svona kennslu líka,“ segir Sólborg og bætir við að eftir að tilkynningin frá Akureyrabæ birtist hafi fleiri kennarar og skólastarfsfólk haft samband við hana og sýnt áhuga á verkefninu. 

Sólborg hefur haldið fyrirlestra út um allt land um þessi mál en vinnur nú að bók sem verður byggð á þeim spurningum sem hún hefur fengið í gegnum síðuna. Hugmyndin að bókinni hefur verið í kollinum á henni í þó nokkurn tíma en hún ákvað að hún þyrfti að koma þessu á prent enda um dýrmætar upplýsingar að ræða. „Þetta er leiðarvísirinn sem ég hefði þurft á að halda þegar ég var unglingur, samantekt af þessum pælingum sem unglingar eru með og getur gagnast bæði við kennslu í skólum en líka til að skapa umræðu heima fyrir,“ segir Sólborg. 

Sólborg var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og ræddi Fávita Instagrammið og væntanlega bókaútgáfu. Viðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Fávitar og typpamyndir