Ísland er friðsælasta landið þrettánda árið í röð

10.06.2020 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Ísland er friðsælasta land í heimi þrettánda árið í röð samkvæmt nýrri greiningu Institute for Economics & Peace, IEP. Í öðru sæti er Nýja-Sjáland og Portúgal er í því þriðja. IEP hefur reiknað friðarstuðulinn Global Peace Index (GPI) árlega frá 2008.

Heimsfriður hefur minnkað um 2,5% síðan 2008 

Meginniðurstaða greiningarinnar er að öryggi á jörðinni hafi minnkað lítillega. Það gerist í níunda sinn á síðustu tólf árum. Öryggi minnkar að meðalatali um 0,34% í landi hverju frá síðustu greiningu. Friður jókst í 81 landi meðan friður minnkaði í 80 löndum á síðasta ári. 

Mesta bætingin var meðal annars hjá Rússlandi, Armeníu, Bahrein, Azerbaijan og í Norðu-Ameríku í mismunandi flokkum. 

Efstu 20 löndin eru: 

 1. Ísland
 2. Nýja-Sjáland
 3. Portúgal
 4. Austurríki
 5. Danmörk
 6. Kanada
 7. Singapúr
 8. Tékkland
 9. Japan
 10. Sviss
 11. Slóvenía
 12. Írland
 13. Ástralía
 14. Finnland
 15. Svíþjóð
 16. Þýskaland
 17. Belgía
 18. Noregur (Belgía og Noregur deila sama sæti)
 19. Bhútan
 20. Malasía

Neðstu fimm löndin eru Afghanistan, Sýrland, Írak, Suður-Súdan og Jemen.

Alls voru 23 mismunandi megindlegar og eigindlegar breytur notaðar til  að gefa löndum stig í þremur flokkum. Þeir eru almennt öryggi, yfirstandandi átök inna- og utanlands og hervæðing. 

Í niðurstöðunum er meðal annars sagt að bilið milli friðsælustu og ófriðsælustu landanna sé að stækka og að tíðni heimsfaraldra hafi þrefaldast á síðustu fjóra áratugi. Því er spáð að  fyrir 2050 muni loftslagsbreytingar valda því að 86 miljónir íbúa í Afríku sunnan Sahara muni þurfa að finna ný heimkynni, 40 milljónir í Suður-Asíu og 17 milljónir í Suður- og Mið-Ameríku.

Niðurstöðurnar má finna hér.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi