Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hunsa lögin og heimsenda bjór til einstaklinga

10.06.2020 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgnýr Thoroddsen
„Við erum aðeins að ögra en við erum að gera þetta því við teljum í raun ekkert eðlilegra,“ segir Þórgnýr Thoroddsen, rekstraraðili heimasíðunnar Bjórland.is Vefsíðan hóf í dag almenna sölu og heimsendingu á handverksbjór til einstaklinga.

Vefsíðan fór í loftið 1. mars og hefur selt áfengi til fyrirtækja með vínveitingaleyfi hingað til.

„Í stuttu máli teljum við að við séum að selja vörur sem séu á pari við allar aðrar vörur. Það er nú þegar hægt að fá drykkjarföng af þessu tagi heim að dyrum frá útlöndum í sama magni.“ 

Taka slaginn fyrir minni brugghúsin

Aðspurður hvort hann hafi engar áhyggjur af mögulegum viðurlögum við lögbrotinu svarar Þórgnýr játandi en hann býst ekki við því að fá viðbrögð yfirvalda við sölunni strax. Þetta sé eina leiðin til þess að fá úr því skorið hvernig málin þróast í áfengissölu á netinu til einstaklinga. Það þurfi fyrst að beita viðurlögum við broti.

„Við erum að taka boltann fyrir bransann á heildina því litlu brugghúsin standa almennt illa gagnvart stóru brugghúsunum,“ segir Þórgnýr.

Það útheimti mikla orku að sinna markaðsstarfi fyrir lítil brugghús og að markaðshlutdeild þeirra sé mjög lítil miðað við þau stærri. Bjórland sé því í góðri stöðu til að taka slaginn sem nýtt fyrirtæki meðan brugghúsin hafi meiru að tapa.

Fljótlega eftir að heimasíðan fór í loftið í mars setti kórónuveirufaraldurinn strik í reikninginn. Því hafi verið ákveðið að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Þórgnýr segir viðtökurnar í dag mjög jákvæðar og að einstaklingar séu þegar farnir að panta sér veigar.

Dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, lagði fram drög að frumvarpi í samráðsgátt í febrúar sem heimilar íslenskum fyrirtækjum að reka netverslanir með áfengi. Frumvarpið er enn í vinnslu.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV