Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hefðu viljað sjá enn rýmra áhættumat fyrir laxeldi

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja þrengt að möguleikum til fiskeldis í nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og telja gagnrýni Landsambands veiðifélaga á matinu vera fráleita.

Nýtt áhættumat um erfðablöndun frá laxeldi sem staðfest var fyrir helgi gerir ráð fyrir 20 prósenta aukningu á leyfilegu eldi á frjóum laxi, með teknu tilliti til mótvægisaðgerða sem Hafrannsóknastofnun leggur til.

„Við erum ekki alls kostar ánægð heldur með niðurstöðu áhættumatsins og hefðum kosið að það væri ennþá rýmra,“ segir Einar K. Guðfinnsson sem vinnur að fiskeldismálum fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Hann segir að vonast hafi verið til þess að leyft yrði að ala meira en tólf þúsund tonn í Ísafjarðardúpi, því burðarþolsmat hafi gert ráð fyrir allt að 30 þúsund tonna eldi í djúpinu.

„Það eru vonbrigði að því leyti að þar er þrengt mjög að möguleikum til fiskeldis. En stóra málið er þó það að það er verið að opna á eldi í Ísafjarðardjúpi og sömuleiðis hitt, að það er búð að setja ákveðinn ramma sem fiskeldisfyrirtækin vita þá um.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einar K. Guðfinsson vinnur að fiskeldismálum fyrir SFS.

Segir gagnrýnina vera fráleita

Þá er SFS ósammála gagnrýni formanns Landsambands veiðifélaga í hádegisfréttum um að með áhættumatinu væri verið að fórna villtum laxastofnum fyrir hagsmuni eldisfyrirtækja.

„Nei það tel ég algjörlega fráleitt. Það er að mínu mati fyllilega tekið tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram og í rauninni vel það. Við höfum lýst því yfir og töldum reyndar að það væri ágætur samhljómur um að byggja á vísindalegri ráðgjöf. Það er verið að gera með þessari niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar og við unum því,“ segir Einar K. Guðfinnsson.