Hættulegt að djamma langt fram eftir nóttu

10.06.2020 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: Trinity Kubassek - CC0
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir segir að það sé mikil áhætta fógin í því að hafa fólk saman á djamminu langt fram eftir nóttu. Þrengsli á skemmtistöðum og mannmergð sé stærsta og alvarlegasta smitleiðin. Þetta kom fram á blaðamannafundi þríeykisins, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Óskars Reykdalssonar, forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Eins og staðan er núna þá lagði ég það til að við myndum áfram loka klukkan 23. Og við höfum rætt það við lögreglustjóra á landinu. Það eru langflestir sem eru sammála því.“ 

Hann vill bíða með það eins lengi og hægt er að lengja opnunartíma skemmtistaða og veitingahúsa. 

„Ég myndi reyna að bíða með það eins lengi og hægt er. Ég held að þetta sé alvarlegasta og stærsta smithættan og smitleiðin að hafa fólk á djamminu saman niðri í bæ á þröngum stöðum, það held ég að sé mikil áhætta og við höfum reynslu af því og upplýsingar erlendiss frá.“ segir Þórólfur.

Opnun ytri landamæra ræðst af fyrstu tilraunum

Eins og flest annað verði það viðmið þó endurskoðuð þegar næsta aflétting fer fram eftir þrjár til fjórar vikur. Á fundinum kom hann einnig inn á þann möguleika að hert verði á takmörkunum á landamærum í byrjun júlí ef vart verður við smit í samfélaginu vegna opnunnar sem gengur í gegn 15.júní.  Opnun landamæra gagnvart löndum utan Schengen svæðisins sé háð því að fyrsta opnun landamæranna gangi vel.

„Ég held að það sé mikilvægt að fá þessa reynslu fyrstu tvær vikurnar af farþegum sem eru einkum að koma frá Evrópu. Það er hugsanlegt að við þurfum að breyta um áherslu þegar ytri landamærin opna. Fara kannski að skima frekar farþegar sem eru að koma frá löndum utan Schengen svæðisins.“ segir Þórólfur.  

Svandís bjartsýn á að hjúkrunarfræðingar semji

Svandís Svavarsdóttir var spurð út í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og hvort að ríkisstjórnin hefði einhverja áætlun ef hjúkrunarfræðingar fara í verkfall. Hún segir að hjúkrunarfræðingar séu lykilstarfsmenn í heilbrigðiskerfinu og hryggjarstykki þjónustunnar. Hún sendi deiluaðilum hlýja strauma inn í kjaraviðræður. Jafnframt segist hún gera ráð fyrir að samningar takist í tæka tíð. Enn sé tími til stefnu.

Nýbreytni í appinu á teikniborðinu

Alma Möller kynnti nýja eiginleika rakningarappsins Rakning C-19. Ferðamenn verða ekki skikkaðir til að sækja appið, en þeir verða eindregið hvattir til að gera það, sjálfum sér og öðrum til heilla.   Verið er að fjölga tungumálum í appinu. Nú þegar er í boði að hafa það á íslensku,ensku, pólsku en við bætast þýska, franska, spænska og ítalska.  Þá er verið að þróa og hanna bluetooth virkni í appinu. Í því felst að rakningarteymið lætur notendur vita ef þeir hafa verið í nánd við einstakling sem greinist smitaður og hefur verið með rakningarappið. Sú lausn er enn á teikniborðinu og verður kynnt frekar ef að verður. Persónuverndarsjónarmið séu í forgrunni í því. Eins og er getur appið aðeins skráð ferðir hvers einstaklings, en ekki rakið saman ferðir fólks.

Rólegt fyrstu dagana

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði að það væri ekki búist við margmenni fyrstu daga eftir opnun. Það sé þó erfitt að segja til um hversu margir ferðamenn koma fyrstu dagana þar sem afbókanir hjá flugfélögum geti orðið allt fram á seinustu stundu. Það eina sem sé vitað er framboð þeirra sæta sem séu í boði. Sá fjöldi muni ekki fara upp fyrir það sem hægt sé að skima.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi