Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Foreldrar uggandi yfir hverfisperra í Rimahverfi

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Foreldrar í Grafarvogi eru uggandi og óttast um öryggi barna sinna á leiksvæðum í grennd við heimili manns sem fróar sé úti í stofuglugga heima hjá sér. Foreldrar krefjast þess að brugðist verði strax við.

Foreldrar í Rimahverfi í Reykjavík segja að um árabil hafi maður sem búsettur er í hverfinu áreitt börn með því að stunda sjálfsfróun í stofuglugga heimilis síns yfir börnum að leik. Maðurinn býr við leiksvæði í hverfinu. Hann hafi margoft verið kærður, einu sinni dæmdur.

Sýndi hárrétt viðbrögð

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir hefur búið í hverfinu frá árinu 2011. Tólf ára sonur hennar hafi orðið fyrir aðkasti mannsins í fyrrasumar. Hann hafi sýnt hárrétt viðbrögð, þrátt fyrir að vera mjög brugðið, hringt í Neyðarlínuna og lýst því sem gerðist ítarlega. Þannig hafi orðið til sönnunargögn í málinu sem liggur á borði héraðssaksóknara í dag. Ragnheiður stofnaði nýverið hóp á Facebook og kannaði meðal foreldra í hverfinu hvort börn þeirra hefðu lent í viðlíka atviki á leikvellinum.

„Og ég satt best að segja hef setið hérna í sjokki í morgun yfir svörunum. ÞAð eru komnir yfir 100 foreldrar í þennan hóp og það er þvílíkur fjöldi barna og atvika sem hafa átt sér stað seinastliðið ár. Ég hélt kannski í einhverri sjálfsblekkingu að þetta atvik sem sonur minn lenti í seinasta sumar hefði sett af stað eitthvað ferli, að þetta hefði verið eitthvað einstakt atvik.“ segir Ragnheiður.

Um 100 atvik sem snúa að manninum

Öll tilvik sem voru nefnd í hópnum snúa að sama geranda. Sonur hennar hafi svo sagt henni frá því að maðurinn hefði endurtekið athæfið síðustu daga. Foreldrum sé brugðið en þeir reyni að nálgast málið af yfirvegun.

„Ég vil hrósa þessum foreldrum og þeim íbúm sem hafa komið að þessu máli því að það eru allir mjög yfirvegaðir og virðast ætla að nálgast þetta mál vel. Maður óttast að hlutirnir fari í einhvern múgæsing, það er ekki fordæmi sem ég vil að börnin mín upplifi. Það þarf að leysa svona mál faglega og vel.“ segir Ragnheiður.

Hún setti þennan pistil á Facebokk í gær.

Skapi næst að skrúfa niður leikvöllinn

Hún segir að það sé snúið að uppræta og leysa mál sem þetta. Foreldrar börðust fyrir því að leikvöllurinn yrði settur upp á sínum tíma og það yrði synd að hann yrði tekinn niður vegna þessa máls. Hins vegar sé óhugguleg tilhugsun að vita af börnum að leik á leikvellinum.

„ Það er líka svolítil sorg því að þarna eru ungbarnarólur sem við börðumst fyrir að fá árið 2016, en núna er ég nánast á leiðinni út með skrúflykil til að skrúfa niður þennan róluvöll. Þetta er ofboðslega leiðinlegt. Í gær stóð ég inni í herbergi barnsins míns og horfði út um gluggann á þennan tiltekna leikvöll og þar voru þrjú börn að róla sér og ég hugsaði bara á ég að hlaupa út? er þetta hægt? Ætli þau séu næstu þolendur í lögreglurannsókn? “ segir Ragnheiður.

Krafa foreldra er að Reykjavíkurborg, Barnavernd  og löggjafinn bregðist við til að uppræta og koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig og tryggja að kynferðisbrotamenn séu ekki búsettir við leiksvæði barna. 

„Það á náttúrulega að veita börnum öryggi og ég hugsaði í gær, ef að rólurnar væru bilaðar þá væri eflaust búið að hlaupa til og laga það, en þetta virðist ekki rúmast innan neins ramma. Þetta er eitthvað þar fyrir utan og maður veit ekki alveg hvað er hægt að gera.“ segir Ragnheiður.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV