Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einar Hugi hefur fengið 15,5 milljónir frá Lilju

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Menntamálaráðuneytið hefur á tveggja og hálfs árs starfstíma Lilju Alfreðsdóttur greitt Einari Huga Bjarnasyni fimmtán og hálfa milljón fyrir lögfræðiráðgjöf og nefndarsetu á vegum ráðuneytisins. Einar Hugi fékk eina komma sjö milljónir fyrir að gegna formennsku í hæfnisnefnd um umsækjendur um stöðu ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins og rúmar fimm milljónir fyrir aðkomu sína að smíði frumvarps um styrki til fjölmiðla.

Kærunefnd jafnréttismála komst nýlega að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Lilju að skipa flokksbróður sinn, Pál Magnússon, í stöðuna hafi verið brot á jafnréttislögum. Fréttastofa hefur sagt frá því að auk þess að gegna formennsku í hæfnisnefndinni hafi Lilja sett Einar Huga í þrjár aðrar nefndir en auk þess hefur hann veitt Lilju lögfræðiráðgjöf.

Einar Hugi gegnir meðal annars formennsku í fjölmiðlanefnd en Lilja fór gegn tilnefningu sérfræðinga í ráðuneytinu þegar hún skipaði hann í þá stöðu í október í fyrra.

Fréttastofa óskaði eftir því við það tækifæri að fá upplýsingar frá ráðuneytinu um greiðslur til Einars Huga vegna starfa fyrir ráðuneytið. Ekki fengust svör við þeirri fyrirspurn sem hefur verið ítrekuð daglega frá því 2. júní. Svör bárust í dag.

15,5 milljónir á tveimur og hálfu ári

Samkvæmt þeim hefur Einar Hugi fengið greiddar fimmtán og hálfa milljón króna fyrir formennsku í nefndum og lögfræðiráðgjöf vegna ýmissa mála. Þar af fékk hann greitt 1,7 milljónir fyrir formennsku í hæfnisnefnd, fimm komma fjórar milljónir fyrir vinnu við frumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla sem Lilja hefur lent í vandræðum með að koma í gegnum þingið og þrjú til sex hundruð þúsund fyrir ráðgjöf vegna annarra mála, svo sem vegna skipan skólameistara.

Einar hefur fengið samanlagt tæpar átta milljónir greiddar fyrir lögfræðiráðgjöf, sem er tæplega þriðjungur af öllum aðkeyptum lögfræðikostnaði ráðuneytisins á tímabilinu frá 1. desember 2017 þegar Lilja tók við embætti menntamálaráðherra, að því er fram kemur í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.