Ætluðu ekki að greina frá 700 milljóna niðurfærslu

10.06.2020 - 12:09
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Það þarf að auka gagnsæi um starfsemi lífeyrisjóðanna til muna hér á landi, að sögn stjórnarmanns í Frjálsa lífeyrissjóðnum. Sjóðurinn ætlaði ekki að greina frá því í ársreikningi að hann hefði samþykkt að lækka virði hlutabréfa sinna um hundruð milljóna í kísilveri PCC á Bakka.

Greint var frá því í apríl að fimm lífeyrissjóðir, auk Íslandsbanka, hefðu lækkað virði hlutafjár síns í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík um nærri tvo milljarða. Þetta voru varúðarniðurfærslur vegna óvissu um starfsemi kísilversins. Fréttablaðið greindi frá niðurfærslum lífeyrissjóðanna og sagði svo frá tapi á rekstri kísilversins á fyrsta ársfjórðungi vegna framleiðslutaps. 

Frjálsi lífeyrissjóðurinn er einn þeirra sem samþykkti að lækka virði sinna hlutabréfa, en niðurfærslan var um 700 milljónir króna. Ekki átti þó að greina frá því í ársreikningi, nokkuð sem Halldór Friðrik Þorsteinsson, stjórnarmaður í sjóðnum, var ósáttur við og gerði þann fyrirvara á staðfestingu ársreikningsins.

„Mér finnst að það þurfi að segja frá niðurfærslu á svona stórum fjárhæðum í ársreikningum lífeyrissjóða. Ársreikningar lífeyrissjóða eru fyrst og fremst upplýsingarit fyrir sjóðsfélaga og það á að vera algjört gegnsæi um allar ákvarðanir og fjárfestingar sjóðanna.“

Halldór segir að þetta vandamál sé ekki bundið við Frjálsa lífeyrissjóðinn heldur vanti almennt betri upplýsingar um kostnað og hreyfingu eigna hjá lífeyrissjóðum landsins.

„Þetta stendur bæði upp á yfirvöld auðvitað að gera skýrari kröfur um framsetningu upplýsinga. Það stendur upp á stjórnir sjóðanna og endurskoðunarnefndir. Það er eitthvað skrítið við það að það þurfi lært fólk í reikningsskilum til þess að skilja það sem kemur fram í ársreikningum. Þetta á að vera skýrt fyrir leikmenn og sjóðfélaga. Þarna má gera miklu betur,“ segir Halldór Friðrik Þorsteinsson, stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi