Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja 10% umfram lífskjarasamninginn

09.06.2020 - 17:00
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Hjúkrunarfræðingar krefjast þess að laun þeirra hækki um 10% umfram lífskjarasamninginn. Ríkissáttasemjari sá ekki ástæðu til að boða nýjan fund að svo stöddu eftir árangurslausan fund í gær. Í dag boðaði hann hins vegar til næsta sáttafundar á fimmtudaginn. Ótímabundið verkfall á að hefjast eftir tæpar tvær vikur.

Kjaraviðræður í 2 ár

Það má segja að kjaraviðræður hafi bráðum staðið yfir samfleytt í tvö ár. Viðræður á almenna markaðinum hófust seinni hluta árs 2018 sem lauk með lífskjarasamningnum sem hefur gefið tóninn í öðrum kjaraviðræðum. Flestir samningar opinberra starfsmanna losnuðu í lok mars í fyrra. Samningamenn voru kannski bjartsýnir því ákveðið var að gera hlé á viðræðum í júlí svo þeir kæmust í sumarfrí enda samfélagið hálflamað og erfitt að kalla menn saman til viðræðna. Flestir bjuggust við að samningar yrðu kláraðir um haustið þegar menn kæmu endurnærðir úr fríi. Friðarskylda var ákveðin fram í september. Samningar létu hins standa á sér og drógust á langinn. Þeir tókust þó á mörgum vígstöðvum þegar langt var liðið á vor og ár frá því að samningar losnuðu. 

Samningar fram á haust

En samningaviðræðum er ekki lokið. Það á eftir að semja við hjúkrunarfræðinga, flugfreyjur, sjómenn, lögreglumenn, lækna, grunnskólakennara, leikskólakennara, tónlistarmenn, leikara og fleiri félög. Ekki hefur verið rætt um að gert verði hlé á viðræðum til að samningamenn komist í sumarfrí eða í kjaraviðræðum sem hefur ekki verið vísað til sáttasemjara. Þrettán deilur eru nú á borði ríkissáttasemjara. Hann setti þessa tilkynningu á vefinn í gær.

Eftir annasamt ár eru áform um að veita sumarfrí hjá ríkissáttasemjara í júlí, eins og undanfarin ár. Áfram verður þó unnið að sáttamálum ef brýna nauðsyn ber til.

 Fastir starfsmenn embættisins eru þrír og þetta þýðir ekki að það verði skellt í lás. Ríkissáttasemjari er ekki á leiðinni í frí og sinnir störfum í júlí. Það er hins vegar ljóst að einhverjar deilur dragast fram á haust.

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm
Flugfreyjur vekja athygli á kröfum sínum

Kröfur sem sprengja

Brýnustu málin þessa stundina eru væntanlega kjaradeilur hjúkrunarfræðinga og flugfreyja hjá Icelandair. Óvissa er um framhald viðræðna í báðum þessum deilum. Eftir fund með hjúkrunarfræðingum og ríkinu sem Aðalsteinn Leifsson sáttasemjari sagði að hefði verið bæði erfiður og þungur sá hann ekki ástæðu til að boða nýjan fund að svo stöddu. Tónninn er annar í dag því hann hefur boðað aðila til fundar á fimmtudaginn 11. júní. Kjaramál hjúkrunarfræðinga voru rædd á Alþingi í gær. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði að það væri vilji ríkisins að semja og ágætis gangur hefði verið í viðræðum síðustu daga.
 „Þetta er ekkert öðru vísi vaxið en þannig að menn hafa einfaldlega ekki náð saman. Frá sjónarhorni ríkisins er ekki hægt fallast á kröfur sem sprengja forsendur almennrar kjarasamningagerðar ríkisins,“ sagði Bjarni.
 

Vilja að laun hækki um 25%

En hverjar eru kröfur hjúkrunarfræðinga? Í samningi sem 53% félagsmanna felldu í lok apríl var kveðið á um krónutöluhækkun, að grunnlaun frá 425 þúsund krónum yrði hækkuð um 68 þúsund krónur á samningstímanum eða í samræmi við lífskjarasamninginn. Samninganefnd hjúkrunarfræðinga lét kanna að hverju óánægja félagsmanna beindist. Fram kom að krafan um meiri hækkun grunnlauna var langefst á blaði. Langflestir töldu að eðlilegt væri að grunnlaunin hækkuðu um 25%. Samninganefndin sem var með felldan samning í höndunum sneri aftur að samningaborðinu með þessa kröfu. Sextíu og átta þúsund krónurnar gefa að meðaltali vel rúmlega 15%. Eftir standa því um 10% sem er krafan sem ríkið getur ekki sætt sig við og sem litið er á af hálfu ríkisins sem umtalsvert meiri hækkun en samið hefur verið við aðra hópa um. Klukkan tifar því ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst 22. júní ef samningar hafa ekki tekist fyrir þann tíma.

Enginn fundur boðaður

Það gengur hvorki né rekur í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair. Þrír sáttafundir voru haldnir í síðustu viku sem skiluðu engum árangri. Ekki hefur verið boðaður nýr fundur en samkvæmt lögum á sáttasemjari að kalla deiluaðila á sinn fund 19. júní eða þegar hálfur mánuður er frá síðasta fundi. Eftir því sem næst verður komist heldur Icelandair fast við það tilboð sem félagið lagði fram á sínum tíma, tilboð sem flugfreyjur sætta sig ekki við. Það felur í sér meiri vinnu fyrir lægri laun að þeirra mati. Flugfreyjur eru í þeirri stöðu að síðasta launahækkun sem þær fengu var í maí 2018. Þær hafa því ekki fengið neinar hækkanir sem tengjast lífskjarasamningnum.