Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vesturlandsvegur tvöfaldaður í Mosfellsbæ í sumar

09.06.2020 - 16:04
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Birkir Blær Ingólfsson - RÚV
Vesturlandsvegur verður tvöfaldaður í sumar í Mosfellsbæ milli Skarhólabrautar og Langatanga. Framkvæmdir hefjast í fyrramálið og má búast við töfum á umferð og að hún gangi hægar fyrir sig.

Frá hringtorgi við Skarhólabraut og að hringtorgi við Langatanga, þrengist Vesturlandsvegur niður í tvær akreinar frá morgundeginum og fram til 15. september. Á þessum vegkafla hafa oft myndast umferðartafir sem framkvæmdirnar eiga eflaust eftir að bæta á á annatímum. 

Vegurinn verður breikkaður í fjórar akreinar og akstursstefnur aðsildar. Þá verður veglýsing endurnýjuð, hljóðvarnir setta rupp og biðstöð sett upp fyrir strætó. Hámarkshraði um framkvæmdasvæðið verður lækkaður niður í 50 kílómetra á klukkustund. 

Einar Már Magnússon, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, segir að ekki sé hægt að beina umferðinni annað á meðan. „Þarna er bara einfaldlega enginn möguleiki á slíkum aðgerðum. Það er íbúahverfi öðrum megin og klöpp hinum megin.“

En skýtur það ekki skökku við að ráðast í þessar framkvæmdir á sama tíma og Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands? „Sumarið er bara sá tími þar sem umferðin er minnst. Þó að við séum að ferðast þá eru skólarnir núna hættir og allt sem því fylgir þannig að þetta er einfaldlega sá tími sem er bestur.“

Hefði ekki verið sniðugt að gera þetta í samkomubanninu? „Þá var ekki búið að ljúka samningum varðandi þetta, þannig að það var eiginlega ekki möguleiki. En svona eftir á að hyggja þá hefði það verið alveg tipp topp.“   

Byrjað verður að breyta umferðarskipulag klukkan sjö í kvöld og stendur sú vinna yfir næstu daga, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. 

 

Áætlað er að framkvæmdum ljúki í haust.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV