Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Útlínur rómverskrar borgar fundnar án uppgraftar

09.06.2020 - 03:30
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Vísindamenn notuðu fjórhjól, ratsjár og gervihnetti til þess að greina útlínur fornrar rómverskrar borgar í dalnum þar sem áin Tíber rennur norður af Róm. Borgin Falerii Novi hefur legið neðanjarðar síðustu 1300 ár. 

Útlínurnar marka um fjórðung af ferkílómetra og er talin hafa verið reist í kringum árið 240 fyrir okkar tímatal og þar hafi verið búseta allt til aldamóta 7. og 8. aldar okkar tímatals. Áður hafði hefðbundinn uppgröftur og tvívíð kortagerðartækni gefið ágætis mynd af borginni. Með nýjustu tækni var þó hægt að fá betri og þrívíða heildarmynd.

Þrívíddarmyndirnar sýna meðal annars nokkur hof, ráðhús og baðhús. Þó Falerii Novi hafi verið miklu minni en nágranninn í Róm, virðist hún hafa verið mun vandaðri en smærri borgir þess tíma, segja vísindamenn. Þeir greindu frá niðurstöðum rannsókna sinna í nýjasta hefti fornleifavísindaritsins Antiquity.

Ratsjártæknin sem notuð var við kortlagningu borgarinnar gæti nýst vísindamönnum við að skoða fleiri fornar borgir sem liggja nú undir nýrri mannvirkjum. Sams konar tækni var notuð þegar stærsta mannvirki Maya fannst í Mexíkó á dögunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV