Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þorvaldur þótti of pólitískur til að ritstýra fræðiriti

09.06.2020 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚv
Sérfærðingur í fjármála og efnahagsráðuneytinu mælti gegn því að Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands yrði ráðinn sem ritstjóri fræða­tíma­rits­ins Nor­dic Economic Policy Revi­ew. Ástæðan var sögð pólitísk afskipti Þorvaldar og þátttaka hans í stjórnmálum.

Hann taldi ráðninguna frágengna en hún var afturkölluð í kjölfar samskipta á milli fjármálaráðuneyta innan Norrænu ráðherranefndarinnar.
Fræðitímaritið er samstarfsverkefni norrænna fjármálaráðuneyta sem er gefið út í samstarfi við Nordregio, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.

Í byrjun nóvember fékk Þorvaldur tölvupóst frá Norrænu ráðherranefndinni þar sem honum var tjáð að hann hefði verið ráðinn sem ritstjóri tímaritsins. Kjarninn greinir frá þessu og hefur fréttastofa einnig gögn málsins undir höndum.

Ráðning dregin til baka eftir 2 vikur 

Í tölvupóstsamskiptum sem dagsett eru í byrjun nóvember á milli starfsmanna fjármálaráðuneyta Norðurlandanna kemur fram að íslenska ráðuneytið styðji ekki ráðningu Þorvaldar í starfið í ljósi virkrar stöðu hans í stjórnmálum. Hann sé samkvæmt þeirra bestu vitund virkur í starfi stjórnmálaflokks.  Ráðuneytið styðji frekar að finnski prófessorinn Jukka Pekk­ar­inen yrði ráðinn eða Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptafræðideildar Háskólans í Reykjavík . Ráðuneyti Dannmerkur og Finnlands undruðust þessa afstöðu Íslands mjög og sögðu að Þorvaldur væri mjög hæfur í starfið. Tveimur vikum eftir að Þorvaldur taldi að hann hefði verið ráðinn í ritstjórastólinn barst honum símtal frá Norrænu ráðherranefndinni þar sem honum var tjáð að ekki yrði af ráðningunni. 

Þorvaldur var einn af stofnendum Lýðræðisvaktarinnar árið 2013, en hann hætti í stjórn flokksins það sama ár eftir alþingiskosningar. Eftir það hefur hann ekki tekið þátt í starfi hreyfingarinnar með neinum hætti. Hann vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Samkvæmt ráðherranefndinni verður Harry Flam, hag­fræði­pró­fessor við Stokk­hólms­há­skóla næsti rit­stjóri Nor­dic Economic Policy Revi­ew.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV