Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sektaður fyrir að fella aspir sem höfðu sögulegt gildi

09.06.2020 - 07:22
Bærinn, eyrin, Ísafjörður, Rúv myndir, yfirlitsmynd
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Héraðsdómur Vestfjarða hefur sektað íbúa í Ísafjarðarbæ um 200 þúsund krónur fyrir að fella níu aspir sem voru í eigu bæjarins. Aspirnar voru gróðursettar í minningu þeirra sem fórust í snjóflóðinu á Flateyri árið 1995.

Dómurinn var lagður fyrir bæjarráð Ísafjarðar í gær. Þórdís Sif Sigurðardóttir, þá starfandi bæjarstjóri, kærði málið til lögreglu.

Maðurinn kannaðist við að hafa fellt aspirnar en taldi sig hafa verið að gera bænum greiða. Hann hefði fjarlægt trén á eigin kostnað þar sem þau hefðu vaxið án þess að nokkuð hefði verið gert.  Húsið hans hefði verið þakið kvoðu af öspunum og þær slegist í húsið.

Hann hefði ítrekað hringt í Ísafjarðarbæ og kvartað yfir því að aspirnar væru að valda tjóni á nýklæddu húsi hans.  Nágrannar hans hefðu hjálpað honum og þá hefðu ferðamenn aðstoðað við að fylla í holurnar sem mynduðust.

Þórdís Sif, sem nú er sveitarstjóri Borgarbyggðar, sagði í símaskýrslu að hún hefði verið að vernda eignir bæjarins og því hefði hún kært þessi eignaspjöll til lögreglu. Garðyrkjufulltrúi bæjarins sagði jafnframt fyrir dómi að hún hefði ekki haft spurnir af því að einhver hefði haft ama af þessum trjám.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV