Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir tilboð Vodafone brjóta gegn samkeppnislögum

09.06.2020 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: Enska úrvalsdeildin - Twitter
Vodafone ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum Enska boltann í gegnum sjónvarp Vodafone á þúsund krónur á mánuði. Forstjóri Símans segir þetta augljósa undirverðlagningu og gerir ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið taki málið upp að eigin frumkvæði.

Vodafone birtir tilboðið eftir að Samkeppniseftirlitið sektaði Símann fyrir að selja stakar áskriftir að enska boltanum á 4.500 krónur, en bjóða þeim sem jafnframt keyptu heimilispakka Símans áskriftina á þúsund krónur. Síðar tilkynnti Nova að enski boltinn yrði notendum Nova TV appsins aðgengilegur fyrir sama verð.

Viðskiptavinir Vodafone hafa getað nálgast enska boltann í gegnum sjónvarp Vodafone en heildsöluverðið, það sem Vodafone greiðir til Símans, er 3.500 krónur. Magnús Hafliðason, forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Vodafone, segir að fyrirtækið muni borga með tilboðinu til að byrja með. „Að óbreyttu en við höfum hins vegar krafist þess að Síminn endurskoði heildsöluverðlagningu á markaði þannig að við getum, sé þess kostur, boðið þetta verð áfram núna og vonandi á næsta keppnistímabili einnig.“

Munuð þið þá gera kröfu á Símann að hann borgi mismuninn? „Það verður bara að koma í ljós hvernig þau mál þróast,“ svarar Magnús.

Segir samkeppnisyfirvöld hljóta að skerast í leikinn

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að það sé ekki Símans að ákveða á hvaða verði aðrir aðilar selja vöru sína á markaði. „Þetta er auðvitað sérstakt í þessu tilfelli að þarna er aðili sem hefur verið skilgreindur markaðsráðandi á mörkuðum fyrir áskriftarsjónvarp annars vegar og sjónvarpsdreifingu hins vegar og slíkir aðilar mega ekki beita skaðlegri undirverðlagningu eins og það er kallað. En ef einhver ákveður að kaupa af okkur vöru og selja á lægra verði á markaði þá er það ákvörðun viðkomandi.“

Spurður að því, fyrst hann telur að Vodafone sé að beita skaðlegri undirverðlagningu sem samræmist ekki samkeppnislögum, hvort Síminn muni kæra svarar Orri: „Við auðvitað bara skoðum alla kosti. Ég geri ráð fyrir að yfirvöld sem að sjá að markaðsráðandi aðili sem er augljóslega að kaupa vöru og selja hana á miklu lægra verði á þeim markaði sem að viðkomandi er markaðsráðandi muni nú kannski bara grípa inn í að eigin frumkvæði.“

Athugasemd: Orri Hauksson, forstjóri Símans, hafði samband við fréttastofu RÚV og sagði að áskrift að Símanum Premium kostaði 6.000 krónur á mánuði, innifalið í þeim pakka væri áskrift að Símanum Sport. Áskrift að Símanum Sport kostaði 4.500 krónur á mánuði. Enginn gæti keypt áskrift að Símanum Sport fyrir 1.000 krónur á mánuði.