Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir rök um hæfi Kristjáns ekki standast skoðun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir það ekki standast skoðun að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, sé ekki með nokkru móti tengdur Samherja í skilningi stjórnsýslulaga, líkt og meirihluti nefndarinnar hefur komist að niðurstöðu um.

„Í mínum huga þýðir þetta það að ráðherra sem sagði á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann hefði ekkert að fela í þessu máli getur falið sig á bak við það að meirihluti nefndarinnar hefur ákveðið að þar sé ekkert að finna. Ekkert að sjá hér sem sagt. Og meirihlutinn sem sagt rannsakar sjálfan sig og kemst að því að það sé ekkert athugavert við stjórnarhætti síns ráðherra. Það er auðvitað ekki trúverðug niðurstaða, það verður að segjast eins og er.“

Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en meirihluti nefndarinnar, skipaður fulltrúum stjórnarflokkanna, taldi tilgangslaust að kanna hæfi Kristjáns Þórs gagnvart Samherja frekar, þar sem hann ætti engra hagsmuna að gæta gagnvart fyrirtækinu í skilningi stjórnsýslulaga.

Þórhildur Sunna segir þetta álit meirihlutans ekki standast skoðun í ljósi þess að ráðherrann hafi sjálfur sagt sig frá stjórnsýsluákvörðunum sem tengjast fyrirtækinu. Hún segir ákvörðun meirihlutans ótímabæra því mörgum spurningum sé ósvarað, til að mynda hvort ráðherrann hafi leitað álits lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins um hæfi sitt.

„Hreinlegast hefði verið fyrir þau að afgreiða málið með skýrslu að aflokinni gagnaöflun og gestakomum til þess að ræða mætti málið í þingsal. En þau hafa ekki minna að fela en svo að þau geta ekki hugsað sér að ræða málið í þingsal,“ segir Þórhildur Sunna sem vonar að forseti Alþingis standi með minnihlutanum í málinu og úrskurði um að nefndin taki málið til frekari umfjöllunar.