
Rannsókn saksóknara á fjárreiðum Zúista lokið
Trúfélagið höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu eftir að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra stöðvaði greiðslur til félagsins.
Ríkið var sýknað af kröfu trúfélagsins fyrr á þessu ári. Ríkislögmaður fór hörðum orðum um félagið í dómsal og sagði það málamyndafélagsskap til að reyna komast yfir fjármuni skattgreiðanda.
Þá kom fram í réttarhaldinu að héraðssaksóknari væri að rannsaka fjárreiður trúfélagsins.
Ólafur Þór Hauksson segir í samtali við fréttastofu að þeirri rannsókn sé lokið og að málið nú komið til ákæranda.
Bræðurnir Einar og Ágúst Arnar Ágústssyni hafa verið í forsvari fyrir Zúista hér á landi. Þeir hafa stundum verið kenndir við umdeilda söfnun á fjáröflunarsíðunni Kickstarter en fjallað var um þá söfnun í Kastljósi fyrir fimm árum
Einar var síðar ákærður fyrir umfangsmikil fjársvik og gjaldeyrisbrot.
Honum var meðal annars gefið að sök að hafa fengið Íslendinga til að leggja rúmar sjötíu milljónir til eignarhaldsfélagsins Skajaquoda. Í röksemdum saksóknara fyrir málsókninni kom meðal annars fram að hann hefði notað bandaríska fréttaskýringaþáttinn 60 minutes til að selja Íslendingi þá hugmynd að fjárfesta í sjóðnum.
Hann var dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í júní fyrir þremur árum og var sá dómur staðfestur í Landsrétti. Dómurinn sagði að brotavilji hans hefði verið einbeittur, brot hans skipulögð og úthugsuð og hefðu staðið yfir í langan tíma. Hann ætti sér engar málsbætur.
Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að Einar hafi stofnað félag um rekstur veitingastaða. Hann er sjálfur framkvæmdastjóri og fer með prókúruumboð. Ágúst bróðir hans er í varastjórn.