Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rakningarappið uppfært og tungumálum fjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsverðra breytinga er að vænta á smitrakningarappinu C-19. Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri hjá Embætti landlæknis, segir að ekki verði fylgst með hvort ferðamenn sem hingað koma muni hlaða appinu í síma sína. Hann segir að enn mikilvægara sé fyrir Íslendinga að nota appið nú eftir að ýmsum hömlum hefur verið aflétt. Um 140.000 notendur hafa hlaðið því niður.

„Það sem við erum að gera núna er að undirbúa komu farþega í næstu viku og vonumst til að vera komin með nýja útgáfu af appinu á mánudaginn þegar þessi sýnataka hefst úti á Keflavíkurflugvelli. Það sem er verið að horfa á þar er að nota appið til að koma niðurstöðunni úr sýnatökunni til skila. Það sem við erum líka að gera er að þróa virkni fyrir ferðamenn þannig að þeir hafi á auðveldan hátt upplýsingar um hvert þeir eigi að leita ef þeir byrja að finna fyrir einkennum eða eitthvað slíkt,“ segir Ingi.

Hann segir að ferðamenn eigi að geta hringt beint úr appinu á heilsugæslu. Embætti landlæknis muni ekki fylgjast með notkun ferðamanna á appinu, en þeir verði hvattir til að nota það.

Til skoðunar að bæta bluetooth-virkni við

 Tungumálum í appinu verður fjölgað, nú er það á íslensku, ensku og pólsku og við bætast þýska, franska, spænska og ítalska. Þá er til skoðunar að bæta bluetooth-virkni við þannig að skilaboð verði send þeim sem hafa verið í nálægð við smitað fólk.

„Þá munu þeir fá skilaboð frá rakningarteyminu um að hringja þangað og þar verður skoðað með þeim hvort þeir hafi verið í sýkingarhættu og hvort þeir þurfi að fara í sóttkví eða ekki,“ segir Ingi.