Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nú er komið nóg er kjarni mótmælanna

09.06.2020 - 21:26
Claudie Ashonie Wilson
 Mynd: RÚV
Nú er komið nóg, slagorð mótmælanna sem brustu á eftir morðið á George Floyd í Minneapolis í Bandaríkjunum, lýsa stöðunni sem upp er komin í réttindabaráttu svartra. Þetta sagði Claudie Ashonie Wilson lögmaður í Kastljósi í kvöld. Hún flutti hingað til lands frá Jamaíka og segir unglingssyni sína, sem eru fædir og uppaldir hér á landi, hafa upplifað fordóma vegna litarháttar síns.

Hún var þar gestur Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur þar sem þær ræddu ástandið í heiminum í kjölfar morðsins á George Floyd, kerfisbundna mismunun á grundvelli húðlitar og hvernig hægt sé að útrýma fordómum í ungu fjölmenningarsamfélagi.

„Að sjálfsögðu tekur þetta á sig mismunandi birtingarmyndir,“ sagði Claudie. „Við erum að tala um lögregluofbeldi, aðgengi að heilbrigðisþjónustu - þar eru til dæmis þeldökkar konur þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að deyja í barnsburði samanborið við hvítar konur.“

Upplausn og samkomubann hafa áhrif

Claudie benti á að þó að svartir séu um 13% bandarísku þjóðarinnar séu þeir um þriðjungur þeirra sem nú hafi látist af völdum kórónaveirufaraldursins. Hún sagði að ekki væri hægt að útiloka að sú upplausn, sem verið hefði í bandarískum stjórnmálum undanfarin ár, ætti þarna hlut að máli. 

Hún sagði að það ástand, sem skapaðist í kjölfar samkomubanns og ýmissa hamlana sem settar voru á ferðir fólks hafi vafalaust haft áhrif. 

Í samfélögum svartra í Bandaríkjunum er meiri mengun, sagði Claudie. Aðgengi þeirra að menntun er lakara en hvítra Bandaríkjamanna og laun þeirra eru lægri. 

Langaði til að koma við svarta manneskju

Sjálf kom hún hingað til lands frá Jamaíka árið 2001. „Hér þurfti ég að upplifa að vera svört í fyrsta skipti,“ segir hún og á þar við að í Jamaíka eru flestir svartir. Hér á landi hafi fólk snert húð hennar og hár vegna þess að það langaði til að koma við svarta manneskju og hún hafi verið ranglega ásökuð um þjófnað í verslun. „En það hefur margt breyst síðan þá til hins góða,“ segir hún.

Synirnir hafa upplifað fordóma

Hún á tvo unglingssyni. Spurð hvort þeir hafi orðið fyrir fordómum vegna litarháttar síns segir hún svo vera. Þeir væru oft spurðir hvort þeir væru Íslendingar, það þætti þeim pirrandi því þeir upplifðu sig þannig. Hún hefði talið sig knúna til að segja þeim hvernig þeir ætti að haga sér á almannafæri, einkum við lögreglu, og að hún hafi lagt áherslu á að þeir geymdu alltaf kvittanir í búðum. Nýlega hafi annar sonurinn verið með þremur hvítum vinum sínum í verslun og hann hafi verið sá eini þeirra sem öryggisvörður bað um að sýna kvittun.

„Hann sagði: Mér leið hræðilega. Ég veit ekki hvers vegna ég var stoppaður en ekki þeir.“ Spurð hvort þeir fyndu almennt fyrir fordómum sagðist Claudie ekki geta sagt það. 

Aðspurð hvernig hún sjái framhaldið fyrir sér sagði Claudie að fólk væri þreytt og krefðist breytinga. „Fólk er að krefjast breytinga til frambúðar, þetta er ákveðið uppgjör ekki bara gagnvart stjórnvöldum heldur líka stórfyrirtækjum.“

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir