Mun minni sýklalyfjanotkun barna á tímum faraldursins

09.06.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Verulega dró úr sýklalyfjanotkun barna á meðan kórónuveirufaraldurinn var í hámarki hér á landi. Talið er að samkomubann og auknar smitvarnir vegna COVID-19 hafi haft þessi hliðaráhrif.

Greindum tilfellum öndunarfærasýkinga fækkaði hjá börnum á leikskólaaldri á tímum COVID-19 hér á landi auk þess sem sýklalyfjanotkun hjá þessum hópi dróst saman. Þetta kemur fram í Talnabrunni Landlæknis sem kom út í dag.

Útgáfa sýklalyfja til barna, fjögurra ára og yngri, var í byrjun árs svipuð og hún hefur verið síðustu fjögur ár. Tveimur vikum eftir að fyrsta COVID-19 smitið greindist fór að bera á því að færri sýklalyfjum var ávísað og greindum öndunarsýkingum fækkaði. Í viku 17, þegar leikskólastarf hafði verið takmarkað í um sex vikur, hafði tíðni öndunarfærasýkinga dregist enn frekar saman og var um 20% af meðaltíðni undangenginna fimm ára. Þá voru sýklalyfjaávísanir til barna einungis 30 prósent af meðalfjölda ávísana síðustu fimm ára.

Sýkingum fækkaði vegna samkomubanns og smitvarna

Svo virðist sem aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19; samkomubann og takmarkanir á skóla- og leikskólastarfi, hafi leitt til þessa samdráttar. Önnur hugsanleg skýring er talin vera aukin vitund um smitgát og varkárni hjá þeim sem annast börn, bæði meðal foreldra og starfsfólks leikskóla. Þá var mælst til þess að börnum sem sýndu jafnvel væg einkenni um sýkingar væri haldið heima til að hindra útbreiðslu faraldursins og að heimsóknum á heilsugæslu væri stillt í hóf, sem kann að hafa leitt til þess að börnunum batnaði án inngripa. 
 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi