Kynnti tilboð sem flugfreyjur höfðu hafnað

09.06.2020 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kynnti flugliðum tilboð sem Flugfreyjufélag Íslands höfðu áður hafnað á starfsmannafundi Icelandair og flugliða í dag. Icelandair boðaði flugliða á fundinn sem hófst klukkan þrjú.

Flugliðar sem starfa hjá félaginu fengu fundarboð í tölvupósti en efni fundarins var ekki tilkynnt starfsfólki.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu snýst fundurinn um kjaramál en Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, hefur kynnt tilboð sem er sambærilegt því sem Flugfreyjufélag Íslands hefur áður hafnað. Á fundinum nefndi Bogi að bæði launakjör og vinnuframlag flugfreyja hjá Icelandair gerði samanburð við önnur flugfélög óhagstæðan.

Icelandair sagði upp miklum meirihluta flugliða sinna fyrr í vor og kjaradeilur hafa sett mark sitt á samskipti félagsins við starfsfólk. Flugfreyjufélagið og Icelandair funduðu hjá ríkissáttasemjara í síðustu viku án niðurstöðu en flugfreyjur hafa verið samningslausar í átján mánuði.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi