Icelandair kynnti stöðu mála fyrir flugfreyjum

09.06.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair boðaði flugfreyjur á starfsmannafund klukkan þrjú í dag. Upplegg fundarins var að kynna stöðu mála hjá flugfélaginu. 

Icelandair hefur átt á brattann að sækja að undanförnu vegna heimsfaraldursins  en stærstum hluta flugfreyja var sagt upp störfum fyrr í vor. 

Horfurnar virðast þó vera að batna en félagið hefur tilkynnt að það hyggist fljúga til ellefu áfangastaða í sumar. 

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að fundurinn hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundur. Hún segir að margt sé í gangi hjá félaginu um þessar mundir og að fjárhagsleg endurskipulagning standi yfir. 

„Landið er að opnast og margar spurningar brenna á okkar starfsfólki,“ segir Ásdís og bætir við að erfitt hafi verið að halda starfsmannafundi í samkomubanni. 

RÚV greindi frá því fyrr í dag að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafi kynnt tilboð fyrir flugfreyjum á fundinum. Ásdís fullyrðir að svo hafi ekki verið.

Ásdís segir að allar flugfreyjur sem starfa hjá félaginu hafi fengið boð á fundinn, jafnt þær sem sagt var upp í vor og þær sem héldu starfinu. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi