George Floyd borinn til grafar í Texas

09.06.2020 - 15:58
George Floyd verður borinn til grafar í Houston í Texas í dag. Floyd var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis í Minneasoda-ríki 25. maí síðastliðinn. Hann var 46 ára gamall. Dauði hans varð kveikjan að miklum mótmælum Bandaríkjunum og víðar í hinum vestræna heimi.

Bein útsending verður frá útför Floyd frá heimaborg hans í Houston. Útsendingin hefst kluknan 16 að íslenskum tíma og stendur í um fjórar klukkustundir. Fjöldi fólks lagði leið sína í kirkjuna í Texas í gær til þess að minnast Floyd við kistulagningu.

Gríðarlegur fjöldi fólks hefur mótmælt kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum og notað hinstu orð Floyds í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi: I can't breath eða ég get ekki andað.

Mótmælin hafa kallað fram viðbrögð í efstu stigum stjórnkerfisins í Bandaríkjunum. Til dæmis hefur Donald Trump forseti Bandaríkjanna sigað þjóðvarðliðinu gegn mótmælendum og hvatt lögregluna til þess að beita hörku til þess að kveða niður mótmælin.

Víða í ríkjum Bandaríkjanna hafa valdbeitingarheimildir lögreglu verið takmarkaðar og ríkisstjórar og borgarstjórar víða sagst ætla að breyta áherslum í löggæslu til þess að gera samfélagið réttlátara.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi