Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólk með lögheimili erlendis fái ekki ferðagjöf

Þórdís Kolbrún á fundi SAF 26.5.20
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á fundi SAF Mynd: Skjáskot/SAF
Meirihluti atvinnuveganefndar leggur til að ferðagjöf stjórnvalda fari aðeins til þeirra sem hafa skráð lögheimili á Íslandi. Nefndarálitinu var útbýtt í gær en breytingartillagan er í samræmi við umsögn frá Þjóðskrá Íslands.

Lagt er til að aðeins þeir sem eru 18 ára og eldri, hafi íslenska kennitölu og hafi lögheimili á Íslandi eigi kost á ferðagjöfinni. Ferðagjöfin er fimm þúsund króna styrkur til að nýta í ferðalög hérlendis.

Önnur umræða um frumvarp til laga um ferðagjöf fer fram í dag, en það er fimmtánda mál á dagskrá. Að þeim loknum á frumvarpið að minnsta kosti eftir að fara í þriðju umræðu áður en það verður að lögum. 

Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir í samtali við fréttastofu að von sé á gjöfinni á næstu dögum.  

Aðspurður hvort ekki liggi á að landsmenn fái gjöfina segir hann að fyrst þurfi þingið að samþykkja lögin. Hann nefnir líka að enn sé unnið að ýmsum tæknilegum útfærsluatriðum. Til dæmis taki tíma að fá leyfi frá Apple og Google fyrir appi sem landsmenn geta hlaðið niður til að nálgast gjöfina. Með appinu gefist landsmönnum kostur á að greiða fyrir ferðaþjónustu en einnig megi þar áframsenda gjöfina til annarra.  

Ólafur segir ráðuneytið binda vonir við að búið verið að greiða úr öllum útfærsluflækjum þegar frumvarpið verður að lögum.