Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Fólk er reitt og sárt“

Mynd: RÚV / RÚV

„Fólk er reitt og sárt“

09.06.2020 - 19:30
Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, segir óljóst hvort Crossfit-íþróttin muni halda áfram undir sama nafni eftir rasísk ummæli eiganda Crossfit-samtakanna um liðna helgi. Fjölmargir keppendur og stöðvar hafa sagst ætla hætta að starfa undir nafni samtakanna.

Greg Glassman, eigandi og framkvæmdastjóri Crossfit, líkti mótmælum í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd, við COVID-19 faraldurinn þegar hann kallaði þau Floyd-19 á Twitter. Orð Glassmann hafa vægast sagt dregið dilk á eftir sér en fjölmargar CrossFit-stöðvar víða um heim hafa slitið samstarfi sínu við CrossFit-samtökin eða hótað því að gera gera það, ef ekki verði gerðar breytingar í stjórn samtakanna.

Þá hefur ríkjandi heimsmeistari kvenna í íþróttinni, Tia-Clair Toomey, gefið það í skyn að hún ætli ekki að halda áfram að keppa verði forysta samtakanna óbreytt. Íþróttavöruframleiðandinn Reebok hefur ákveðið að framlengja ekki samstarf sitt við CrossFit að loknum heimsleikunum í sumar, en heimsleikarnir hafa borið nafn fyrirtækisins.

Tekur þessu persónulega

Æfingastöðin CrossFit Reykjavík hefur nú bæst í hóp þeirra sem segjast ekki ætla að starfa undir Crossfit-samtökunum án breytinga. Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, er meðal eigenda stöðvarinnar.

„Þetta er eitthvað svo ótrúlega persónulegt fyrir manni. Ég er persónulega náttúrulega búin að leggja blóða, svita og tár í þetta og þykir svo ofboðslega vænt um þessa íþrótt. Það er sama í CrossFit Reykjavík, við erum búin að vera starfandi í mörg ár og maður vill vera í forsvari fyrir það sem CrossFit á að vera að standa fyrir. Við erum í rauninni að sýna það að við viljum ekki samþykkja að standa fyrir neitt þegar kemur að rasisma eða nokkurs konar mismunun á neinn máta,“ segir Annie Mist og bætir við:

„Þetta er í rauninni leið til þess að sýna að við erum ekki tilbúin til þess, við styðjum ekki það sem hann var að segja. Það er svona sem við getum sagt það og krafist þess að það verði einhver breyting.“

Viss um að það verði breytingar

Annie Mist segir þá að Glassman geti ekki annað en hlustað á CrossFit-samfélagið. Fólk sé bæði reitt og sárt en standi saman gegn hvers kyns mismunun.

„Hann [Glassman] þarf klárlega að hlusta á samfélagið og það er það flotta við CrossFit, sem maður er að sjá, að fólk er reitt, fólk er sárt en það eru eiginlega allir að koma saman og það sem maður sér standa upp úr er þetta samfélag, þessi stuðningur, að vinna saman að einhverju. Ég held að hann verði að hlusta á það og það verða að vera einhvers konar breytingar,“

„CrossFit verður alltaf til staðar en það er spurning hvort það verði þá undir sama nafninu, nema hann verði með einhverjar alvöru breytingar.“ segir Annie Mist.

Ummæli Annie Mistar má sjá í spilaranum að ofan.