Fimm daga ferð um Vestfirði og ótrúleg náttúrufegurð

Mynd með færslu
 Mynd: Hvesta

Fimm daga ferð um Vestfirði og ótrúleg náttúrufegurð

09.06.2020 - 13:39
Í sumar ætlum við á RÚV núll að koma með hugmyndir af nokkrum skemmtilegum ferðum til að fara í með fjölskyldu eða vinum og kynna lesendum undir nafninu Pakkaferð RÚV núll. Við byrjum á Vestfjörðum en þar er margt að skoða og fleira að gera.

Það er að sjálfsögðu hægt að taka Vestfirðina á einni helgi en pakkaferðin sem við höfum sett saman fyrir ykkur hér að neðan gerir ráð fyrir fimm nóttum á þessum fallegasta kjálka landsins. 

Við gerum ráð fyrir því að þú farir af stað á miðvikudegi og komir í bæinn á sunnudegi, svo það er löng helgi framundan. En áður en við skellum okkur upp í bílinn er gott að vera kominn með góðan lagalista, hér eru nokkur tilvalin ferðalög:

Dagur 1
Við leggjum af stað klukkan níu, setjum bílinn í gang og höldum af stað á þjóðveg 1, stoppum í Borgarnesi og fáum okkur einn rjúkandi heitan kaffibolla, eða safa í fernu. Brunum svo áfram og beygjum upp Bröttu brekku en næsta stopp eru Erpsstaðir þar sem hægt er að fá sér ís og hreyfa fæturnar á hoppudýnu. Þú ert í fríi svo það má fá sér ís fyrir hádegi.

Því næst er haldið áfram á veginum góða og næsta stopp eru Reykhólar, á leiðinni væri hægt að taka stutt stopp í Bjarkarlundi þar sem sjónvarpsþættirnir Dagvaktin voru teknir upp og skella í eina góða Georgs Bjarnfreðarsonar eftirhermu fyrir nánu vinina á Instagram. Eftir að hafa fengið sér eitthvað gott í gogginn heldur ferðalagið áfram, smá keyrsla framundan eða 197 km en það er klárlega  þess virði því næsta stopp er Rauðisandur.

Eftir rúmlega þriggja tíma keyrslu er gott að standa upp, njóta fegurðarinnar og jafnvel dýfa tánum í sjóinn ef það er gott veður. Nú fer að líða á kvöld og því sniðugt að fara koma sér áfram. Síðasta stoppið í dag er Patreksfjörður. Þar er gott tjaldstæði og önnur gisting. Takið grillið fram eða njótið þess sem bærinn hefur upp á að bjóða í mat og drykk.

Mynd með færslu
 Mynd: Rauðisandur - Google
Rauðisandur

Dagur 2
Það er frábær sundlaug á Patreksfirði sem væri hægt að byrja daginn á eða baða sig á næsta stoppi en það er Tálknafjörður. Þar er heitur pottur sem heitir Pollurinn. Næst er það Bíldudalur, sem eru ekki nema 20 mínútur frá Tálknafirði. Þar er Skrímslasetrið sem er gaman að fara á fyrir unga sem aldna.

Eftir það er gaman að taka smá hliðarspor og keyra í Selárdal en þar er listasafn Samúels, listamannsins með barnshjartað, auk þess sem Uppsalir, bær Gísla á Uppsölum, er þar að finna. Á leiðinni út í Selárdal verður ekki komist hjá því að virða fyrir sér ótrúlega náttúrufegurð í Hvestu, þar sem hvít ströndin mætir hrikalegri fjallasýninni og grænum fjarðarbotninum.

Það tekur tvo klukkutíma að keyra frá Selárdal, aftur í gegnum Bíldudal og að fossinum Dynjanda. Ótrúleg náttúruperla sem myndi sannarlega prýða Instagram-vegginn þinn. Fossinn Dynjandi fellur niður um það bil 100 metra hátt, bungumyndað berg.

Síðasta stopp dagsins er svo Flateyri en á leiðinni er hægt að stoppa á Þingeyri og fá sér jafnvel kaffi og vöfflu. Frá Dynjanda að Flateyri eru 71.8 km að keyra og kominn tími til að finna sér náttstað.

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson
Dynjandi

Dagur 3
Á Flateyri er frábært að vera. Í dag er ekki jafn mikil keyrsla og hina tvo dagana enda er fríið til að njóta þess. Taktu daginn snemma, fáðu þér morgunmat á Flateyri og jafnvel hádegismat á Ísafirði, sem aðeins er í um tuttugu mínútna fjarlægð. Gamli bærinn á Ísafirði er fallegur staður sem gaman er að rölta og þrívíddar gangbrautin við Aðalstræti er skemmtileg sjón. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Ragnheidur Ragnarsdottir (@raggarosalega) on

Seinnipartinn er svo nauðsynlegt að skjótast til Bolungarvíkur en þangað tekur aðeins um tíu mínútur að aka. Í Bolungarvík er frábær sundlaug, kölluð Musteri vatns og vellíðunnar, og frá Bolungarvík má keyra beint á topp Bolafjalls með stórbrotnu útsýni yfir Hornstrandir. Sumir segja að þar megi sjá alla leið til Grænlands í góðu skyggni. Uppi á Bolafjalli er einnig ratsjárstöð sem áhugamenn um undarleg mannvirki kynnu að hafa gaman af að sjá. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ísafjörður
Ísafjörður

Dagur 4 
Í dag keyrum við Ísafjarðardjúp áleiðis suður aftur en komum við í sundlauginni í Heydal og endum daginn svo á Drangsnesi. Það tekur um tvo klukkutíma að keyra frá Ísafirði í Heydal en þar er frábær innilaug til að fara í og mikilvægt að smella eins og einni mynd af sér. Frá Heydal liggur leiðin áfram um djúpið, yfir Steingrímsfjarðarheiði og stímið tekið beint á Drangsnes þar sem gaman er að verja síðustu nóttinni. Á Drangsnesi er búið að koma fyrir heitum pottum í flæðarmálinu sem öllum er frjálst að nýta sér og njóta frábærs útsýnis. 

Það er gaman að segja frá því að Drangsnes er eitt af tveimur þorpum á landinu sem stendur við mynni fjarðar og útsýnið yfir Grímsey í Steingrímsfirði er óviðjafnanlegt. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by THE WIRTHS (@wirth.a.trip) on

Dagur 5
Í dag er komið að því að keyra heim. Frá Drangsnesi og í höfuðborgina eru 263 km. og um að gera að fara sér hægt, stoppa reglulega, skoða fallega staði á leiðinni og njóta ferðalagsins. Þetta var jú bara fyrsta ferðalag sumarsins og nóg eftir. 

Í sumar ætlum við á RÚV núll að koma með tillögur að skemmtilegum ferðalögum til að fara í sumar.