Blaðamannafundur var haldinn í ráðherrabústaðnum í gær um breytingar á reglum um komu ferðamanna til Íslands 15. júní. Þar kom fram að gert er ráð fyrir að skimað verði á þeim stöðum þar sem farþegar eru að koma að utan. Það eigi líka við á Reykjavíkurflugvelli um flugfarþega erlendis frá.
Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, hefur síðustu vikur leitt samhæfingarteymi sem hefur undirbúið skimun á landamærum. Hann segir að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um framhaldið en mögulega verði lönd utan Schengen undanskilin fram að mánaðamótum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum í gær að allir sem koma hingað til lands eftir 15.júní þurfi eftir sem áður að fara í sóttkví nema þeir fari í skimunarpróf og hlaði niður rakningarappi. Þá þurfi ferðamenn að svara ákveðnum spurningum um heilsufar sitt áður en þeir koma og til skoðunar sé hvort ferðamönnum verði skylt að hafa sjúkra- eða ferðatryggingu þegar þeir koma til landsins. Hann sagði að fallið hefði verið frá því að ferðamenn sem hingað koma geti framvísað vottorði um að þeir hafi þegar fengið veikina. Rökin voru meðal annar að ekkert alþjóðlegt staðlað vottorð hefur verið gefið út . Skimanirnar séu tilraunaverkefni sem verði leiðbeinandi um framhaldið.