Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Farþegar utan Schengen-svæðis gætu þurft að bíða

09.06.2020 - 15:19
Mynd: RÚV / RÚV
Farþegar frá löndum utan Schengen gætu þurft að bíða fram að mánaðamótum eftir því að komast til Íslands. Teymisstjóri sem undirbýr skimanir á landamærum, segir að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun. „Það er ekkert ólíklegt að það verði framlengt út mánuðinn miðað við umræður á ráðherrafundi Schengen-ríkjanna fyrir helgi.“

Blaðamannafundur var haldinn í ráðherrabústaðnum í gær um breytingar á reglum um komu ferðamanna til Íslands 15. júní. Þar kom fram að gert er ráð fyrir að skimað verði á þeim stöðum þar sem farþegar eru að koma að utan. Það eigi líka við á Reykjavíkurflugvelli um flugfarþega erlendis frá. 

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, hefur síðustu vikur leitt samhæfingarteymi sem hefur undirbúið skimun á landamærum. Hann segir að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um framhaldið en mögulega verði lönd utan Schengen undanskilin fram að mánaðamótum. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum í gær að allir sem koma hingað til lands eftir 15.júní þurfi eftir sem áður að fara í sóttkví nema þeir fari í skimunarpróf og hlaði niður rakningarappi. Þá þurfi ferðamenn að svara ákveðnum spurningum um heilsufar sitt áður en þeir koma og til skoðunar sé hvort ferðamönnum verði skylt að hafa sjúkra- eða ferðatryggingu þegar þeir koma til landsins. Hann sagði að fallið hefði verið frá því að ferðamenn sem hingað koma geti framvísað vottorði um að þeir hafi þegar fengið veikina. Rökin voru meðal annar að ekkert alþjóðlegt staðlað vottorð hefur verið gefið út . Skimanirnar séu tilraunaverkefni sem verði leiðbeinandi um framhaldið.

Hér má horfa á allan fundinn. 

Víðir Reynisson - Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að ferðaþjónustan færist í framlínuna.

Fram hefur komið í fréttum að Icelandair stefnir á að fljúga til ellefu áfangastaða frá og með 15. júní þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. Áfangastaðirnir verða Kaupmannahöfn, Berlín, München, Amsterdam, Zürich, Frankfurt, París, Lundúnir, Stokkhólmur, Ósló og Boston. Fimm önnur flugfélög hafa tilkynnt um flug til Íslands í sumar; Atlantic Airways, Czech Airlines, SAS, Transavia og Wizz Air. Áfangastaðirnir sem staðfestir hafa verið eru Færeyjar, Prag, Kaupmannahöfn, Amsterdam og Mílanó.  Farþegar frá Bandaríkjunum koma þá til að byrja með hingað aðeins í gegnum Boston. 

Mynd: RÚV / RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fjöldi farþega til landsins hverju sinni ráðist af afkastagetu í greiningum á sýnum.
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV