Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Farþegar og áhafnir Icelandair munu bera grímur

09.06.2020 - 17:09
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þeir sem munu ferðast með Icelandair frá og með 15. júní þurfa að bera andlitsgrímur. Það sama mun gilda um áhafnir flugvéla félagsins. Enginn matur verið borinn fram í vélum félagsins og þrif í þeim verða aukin.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Þar segir að allir farþegar, að undanskildum börnum undir 12 ára aldri, þurfi að bera grímur. Það sé gert til að gæta fyllsta öryggis og koma í veg fyrir möguleg smit, til viðbótar við aðrar sóttvarnir, svo sem handþvott og notkun handspritts. Þjónusta verður áfram takmörkuð af öryggisástæðum og verður engin matarþjónusta um borð fyrst um sinn en vatnsflöskur verða afhentar þegar gengið er um borð.

Nota má heimagerðar grímur

Þjónustustig verður endurmetið þegar á líður. Þá verður Saga Shop lokuð að minnsta kosti fyrst um sinn, að þvi er fram kemur í tilkynningunnii. Félagið mun halda áfram að leggja áherslu á aukin þrif um borð í vélunum. 

Farþegar verða hvattir til að koma með eigin grímur og mega þær vera heimagerðar eða aðkeyptar, en þær verða að hylja munn og nef. Grímur verða einnig tiltækar um borð og mælt er með því að fleiri en ein verði notuð í flugferðinni. Taka má þær niður til að neyta matar og drykkja.

Fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis

Í tilkynningunni segir að undirbúningur sé nú í fullum gangi innan félagsins, meðal annars á sviði sölu- og markaðsmála og við frekari útfærslu sóttvarna um borð. „Heilsa og öryggi farþega og starfsfólks er forgangsmál og fylgir félagið áfram ráðleggingum sóttvarnalæknis og leggur á sama tíma áherslu á að koma til móts við væntingar farþega alls staðar að úr heiminum,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að vel verði fylgst með loftgæðum vélanna og að Saga Lounge setustofan á Keflavíkurflugvelli verði opin með lágmarksþjónustu.

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Icelandair undir fyrirsögninni Hugarró á flugi.