Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Færri fá kettling en vilja

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - Pexels
Þau sem leita að kettlingi, eða jafnvel stálpuðum ketti til að taka að sér, hafa fæst erindi sem erfiði þessa dagana. Lítið er auglýst af kettlingum á vefsíðum þar sem áður mátti finna slíkar auglýsingar í tugatali. 

Hægt hefur verið að ganga að því sem vísu undanfarin ár að finna kettling auglýstan gefins á ýmsum vefsíðum á netinu. Nú ber hins vegar svo við að meira finnst af auglýsingum frá fólki í leit að kettlingi en af nýjum gotum. Í þeim örfáu tilvikum um kettlingaauglýsingar hafa fundist á samfélagsmiðlum undanfarna daga hefur fjöldi áhugasamra verið langtum fleiri en kettlingarnir sem í boði eru. 

Hanna Evensen, rekstrarstjóri í Kattholti segir að eftirspurnin hafi verið mikil og ekkert framboð í nokkra mánuði. Það megi segja að kettlingaskortur sé í landinu þessa dagana. 

„Já það er hægt að segja það. Það er búin að vera mikil eftirspurn og lítið framboð núna. Ég hef svona tekið eftir því frá janúar febrúar það hefur verið skortur á bæði fullorðnum og kettlingum.“

Kórónuveirufaraldurinn möguleg skýring

Stálpaðir kettir stoppi ekki heldur lengi í Kattholti. „Nei yfirleitt ekki. Það er svo mikil eftirspurn að þeir eru ekki að stoppa nema eina eða tvær vikur hjá okkur,“ segir hún. Mögulega skýri kórónuveirufaraldurinn aukna eftirspurn. „Það gæti verið líkleg skýring á því að í COVID-inu að hafi menn verið einmana og viljað eignast félaga. Það gæti verið partur af þessu, já ég tel að það sé líklegasta skýringin.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: EVG photos - Pexels

Eins og á öðrum hótelum landsins þá hefur lítið verið um gesti á kattahótelinu í Kattholti. Pláss er fyrir 60 kisur á hótelinu og þær hafi verið fimm þegar þær voru flestar í apríl, en eru tólf núna, segir Hanna. Nú eru fimmtán kettir í heimilisleit í Kattholti, segir Hanna. En þær verði líklega ekki þar lengi. „Kannski eina tvær vikur. Það er rosaleg eftirspurn ennþá þannig að það er bara mjög gott. Finna bara frábær framtíðarheimili á skömmum tíma,“ segir Hanna. 

Telur aukna fræðslu skýra þróunina 

Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands, segir að eftirspurn hjá þeim hafi aukist og dvínað í bylgjum frá því að að samtökin hófu starfsemi árið 2008. Meiri eftirspurn sé nú eftir bæði hundum og köttum, hvort sem það eru stálpuð dýr eða hvolpar og kettlingar. „Og þessi þróun er búin að vera síðasta eitt til eitt og hálft ár og virðist vera í hámarki núna. Það eru mun fleiri um hvert dýr heldur en hefur verið áður.“

Valgerður telur ekki hægt að skýra þessa þróun eingöngu með auknum áhuga á félagsskap dýra í kórónuveirufaraldrinum. Hún telur aukna fræðslu á samfélagsmiðlum kunna að spila þar frekar inn í. Dýraeigendur séu ábyrgari og minna um að fólk taki að sér dýr án þess að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem því fylgi. Færri dýr fari því milli eigenda eða á vergang. Þá geti aukin fræðsla hafa orðið til þess að fleiri dýr eru tekin úr sambandi. 

„Það voru á tímum engin dýr í heimilisleit, eða enginn hundar í heimillisleit á heimasíðunni hjá okkur til dæmis, sem hafði aldrei gerst áður út af því að það voru fleiri um hvert dýr þannig að dýrin eru að fá heimili á miklu styttri tíma.“

Mynd með færslu
 Mynd: Buenosia Carol - Pexels

Langir biðlistar eftir hreinræktuðum köttum

Sigurður Ari Tryggvason, formaður Kynjakatta - Kattaræktarfélags Íslands, segist ekki hafa hitt ræktendur frá því í haust vegna heimsfaraldursins því aflýsa þurfti síðustu kattasýningu. Þá hafi ræktendur ekki getað flutt inn ketti af sömu ástæðu. Hann viti nokkrum gotum á næstunni en langir biðlistar séu eftir kettlingum af flestum tegundum. Sveiflur geti verið í framboði og eftirspurn því hvíla þurfi læður milli gota.

Eitthvað hafi verið um kettlinga síðasta sumar þegar getnaðarvarnapilla fyrir læður hafi verið illfáanleg. Dýralæknar hafi þá boðið tilboð á geldingum sem einhverjir kunni að hafa keypt. Þá hafi sumir ræktendur látið lyfjagelda fressa sína í fyrra til að róa niður heimilið. Þá er græddur í þá pinni sem dugar í ár þannig að þeir gætu verið að missa virknina núna.

Minna um ferðalög og fleiri að taka að sér dýr

Valgerður segir að á vorin hafi yfirleitt dregið úr eftirspurn eftir ungum dýrum því fólk vilji geta farið í ferðalög yfir sumarið. Minna sé nú um utanlandsferðir og því geti það frekar tekið að sér dýr núna en síðustu ár. 

„Eins og staðan er núna er fólk ekki að fara erlendis að mínu viti í sumar þannig að fólk getur tekið að sér dýr á þessum tíma frekar en það hefur verið að gera síðustu ár.“