Bændur á Héraði fá brenniþurrk ofan í flög kalinna túna

09.06.2020 - 20:39
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Þurrkatíð er nú á Héraði og bændur óska sér rigningar til að blása lífi í dauðkalin tún. Bóndi í Eiðaþinghá telur að tjón vegna kals verði 3-5 milljónir og kallar eftir að bjargráðasjóður hjálpi bændum.

Á bænum Hjartarstöðum söfnuðust mikil svell á tún í vetur líkt og víða á Norður- og Austurlandi. Svellið kæfði grasrótina og þurfa bændur því að vinna upp kalin túnin, plægja, tæta, valta og bera í áburð og grasfræ. Svo mikil er ásókn í fræið að sumar tegundir hafa selst upp.

„Ég er að heyja svona hundrað hektara af túni og núna er ég búinn að vinna upp rétt um 50. Þá eru kannski 20-30 eftir sem bíða seinni tíma. Þetta kostar pening, ég hefði skotið á svona þrjár, fjórar jafnvel fimm milljónir. Það er aukinn áburður það er fræ, það er hellingur af olíu, það eru vinnulaun, tækjaleiga og svona eitt og annað,“ segir Halldór Sigurðsson, kúabóndi á Hjartarstöðum.

Bændur hefðu þegið almennilega rigningu til að hjálpa grasfræinu en lítið hefur rignt, aðeins rétt blotnað á. „Núna er afskaplega gott veður, sól og sunnan vindur. Hér er yfirleitt Norðaustan átt eða suðvestanátt og úrkoman er í Norðaustan áttinni en suðvestanáttin er þurr og það er orðið ansi þurrt núna og það hamlar vexti og spírun á fræi,“ segir Halldór. Og veðurspáin úr vikuna hljóðar upp á áframhaldandi þurrk á Norðausturlandi og á hitinn að ná 20 stigum fimm daga í röð.

Halldór slær venjulega fyrri slátt í lok júní en þarf nú að bíða fram í ágúst eftir megninu af sprettunni. Flest túnin getur hann aðeins slegið einu sinni og sér fram á talsverð fóðurkaup. „Þetta er ansi þungt ef maður þarf að taka þennan kostnað á sig. Það er nefnilega þannig að verðlagning á afurðum eins og mjólkinni er ákveðin af opinberri nefnd. Við höfum ekkert um það að segja og ekki tækifæri til að velta þessum kostnaði út í mjólkurverðið. Þannig að maður vonast nú til að það verði aukafjárveiting úr ríkissjóði í bjargráðasjóð sem er okkar tryggingasjóður í þessum tilvikum,“ segir Halldór Sigurðsson, kúabóndi á Hjartarstöðum.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi