Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aðgerð Trumps gæti spilast upp í hendur Rússa

09.06.2020 - 04:36
epa08472439 A US military aircraft flies at the US Airbase in Ramstein, Germany, 08 June 2020. The Ramstein US Air Base is a military airfield of the United States Air Force and Headquarters of US Air Forces in Europe. According to the media, the USA wants to reduce the number of soldiers stationed in Germany by up to 9500.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að draga hátt í tíu þúsund hermenn til baka frá Þýskalandi er áhöttusöm að mati breskra þingmanna og evrópskra hernaðarsérfræðinga. Þeir óttast að aðgerðin geti fært stjórnvöldum í Kreml yfirhöndina og grafi undan hernaðarbandalagi vestrænna ríkja eftir síðari heimsstyrjöldina. Eins gæti aðgerðin haft áhrif á aðgerðir Bandaríkjahers í Mið-Austurlöndum og í Afríku.

Guardian hefur eftir sérfræðingunum að alls sé óvíst hvort Donald Trump takist þetta ætlunarverk sitt fyrir forsetakosningarnar vestanhafs í nóvember.

Stoltenberg hringdi í Trump

Greint var frá því í bandarískum fjölmiðlum síðasta föstudag að Trump hygðist draga um fjórðung hermanna Bandaríkjahers til baka frá herstöðvum í Þýskalandi. Tillagan verður að hljóta samþykki varnarmálaráðuneytisins til að ná fram að ganga. Stjórnvöld í Berlín hafa enn ekki fengið formlega tilkynningu um þetta. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, sagði við Bandaríkjaforseta í síma í gær að það væri nauðsynlegt að viðhalda styrk NATO um þessar mundir. 

Hlusta síður á Bandaríkin ef af verður

Guardian hefur eftir Tobias Ellwood, þingmanni breska Íhaldsflokksins og formanni varnarmálanefndar breska þingsins, að hann efist um að tillaga Trumps nái fram að ganga. Hún eigi eftir að fara í gegnum Bandaríkjaher. Hann sagði það hættulegan leik að draga úr hernaðarmætti í þeirri von að Þjóðverjar fylli upp í stöðurnar. Það gæti átt eftir að spilast upp í hendurnar á Rússum að mati Ellwoods. Formaður utanríkisnefndar breska þingsins, Tom Tugendhat, segir aðgerðina geta skaðað pólitísk samskipti Evrópu og Bandaríkjanna. Ef hún nær fram að ganga komi Evrópuríki til með að hlusta síður á Bandaríkin á meðan Trump verður við völd. 

Gæti verið hefnd gegn Merkel

Þá herma heimildir Guardian að mögulega sé þetta persónuleg hefndaraðgerð Trumps í garð Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Hann er sagður hafa orðið verulega ósáttur við að Merkel hafi útilokað hugmyndir Trumps um að halda ráðstefnu G7 ríkjanna í Bandaríkjunum í júní.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV