Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þungur og erfiður fundur“

08.06.2020 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, segir samningafund í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins, sem lauk laust eftir klukkan fjögur, hafa verið þungan og erfiðan. Ekki væri ástæða til að boða til nýs fundar að svo stöddu. Samninganefndir þyrftu að meta stöðuna áður en til þess kæmi.

Tvær vikur eru þangað til ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst en hjúkrunarfræðingar hafa verið án samnings í fimmtán mánuði. Þeir felldu kjarasamning í atkvæðagreiðslu í lok apríl og samþykktu fyrir helgi verkfallsboðun með miklum meirihluta. Að óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir að morgni mánudagsins 22. júní.

Mikið ber í milli, sérstaklega hvað varðar launaliðinn, og hjúkrunarfræðingar gera kröfu um hækkun grunnlauna. Verkfallið hefði víðtæk áhrif, en það tekur til tvö þúsund og sex hundruð hjúkrunarfræðinga um allt land.

Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir í samtali við fréttastofu að áfram miði í viðræðunum á meðan enn sé fundað. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um fundinn. Hann sagði fyrir helgi að ríkið hefði teygt sig eins langt og kostur væri til að koma til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga.