Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Það er leikur að læra íslensku

08.06.2020 - 19:42
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Kristinn Þeyr Magnússon
120 börn læra íslensku með leik í nokkrum skólum borgarinnar í sumar. Börnin, sem sum tala fimm tungumál, segja ekkert mál að bæta enn einu við. 

Dagbjört Ásbjörnsdóttir er verkefnastjóri fjölmenningar hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. 

„Við erum að starta verkefni þar sem við erum að fá börn í fyrsta til fjórða bekk núna í júní og svo eru börn í fimmta til sjöunda bekk í ágúst þar sem að börn sem eru tiltölulega nýflutt til landsins er boðið upp á þrjár vikur gjaldfrálst í verkefni sem kallast „Lært í gegnum leikinn“ þar sem við erum með málörvunarverkefni í gegnum leik og frístund.“

Í þessum hópi barna eru innflytjendur, flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa verið á landinu í 12 mánuði eða skemur. Íslenskan er meðal annars kennd með leikjum, teikningum og söng.

Charlotte er nemandi á námskeiðinu. Henni þykir skemmtilegt að læra íslensku en hún talar hvorki meira né minna en fimm tungumál. 
Frönsku, spænsku, smá katalán, íslensku og ensku.“
-Er ekki erfitt að muna öll þessi tungumál?
„Nei, mér finnst það ekki erfitt.“

Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á námskeiðið - en Dagbjört segir að þörfin sé mikil og eftirspurnin eftir því. 
 
„Því það eru ofboðslega margir að kalla eftir því að það sé lengra skólaárið fyrir börn sem eru enn þá að ná tökum á íslenskunni og þurfa massíva vinnu til að ná tökum á íslenskunni.“

Og það vefst ekkert fyrir börnunum að tjá sig þó þau tali ekki endilega sama tungumálið. 

„Börn eru bara svo einstök. Þau bara finna alltaf leiðir til þess að tjá sig.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV