Sóttkví byggingarfulltrúans tafði fyrir svari

08.06.2020 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur vísað frá kærumáli íbúa í Stykkishólmi vegna framkvæmda á nágrannalóð hans. Íbúinn kvartaði meðal annars yfir því að erindi hans frá 22. apríl hefði ekki verið svarað. Bæjaryfirvöld sögðu á því eðlilegar skýringar; byggingarfulltrúinn hefði meðal annars verið í sóttkví.

Íbúinn hafði fyrst samband við bæjaryfirvöld í nóvember og gerði þar athugasemdir við framkvæmdir á nágrannalóð. Steyptir veggir væru of háir og of nálægt lóðamörkum.  Hann krafðist þess síðan í janúar að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Byggingarfulltrúi Stykkishólms tók málið til athugunar og komst að því nokkrum dögum seinna að girðingar á lóðinni væru ekki í samræmi við reglur og að framkvæmdir við þær hefðu verið stöðvaðar. 

Þrátt fyrir þetta var framkvæmdum haldið áfram og þann 22. apríl krafðist íbúinn að þvingunarúrræðum yrði beitt og mannvirki fjarlægð.  Þessu erindi var hins vegar ekki svarað.

Bæjaryfirvöld sögðu í skýringum sínum til úrskurðarnefndarinnar að svarið  hefði tafist af nokkrum ástæðum, meðal annars hefði byggingarfulltrúinn þurft að fara í sóttkví í apríl og svo hefðu þarna verið páskar. Erindinu hefði síðan verið svarað 22. maí.

Úrskurðarnefndin tekur þessar skýringar sveitarfélagsins gildar. Hún segir jafnframt að upplýsingar frá sveitarfélaginu gefi tilefni til að ætla að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi